Leikfélag Mosfellssveitar sýnir um þessar mundir söngleikinn Fúttlús eftir Dean Pitchford og Walter Bobbie í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Þýðandi verksins er Gísli Rúnar Jónsson. Sýningin er liður í sumarstarfi leikfélagsins sem gengur undir nafninu Leikgleði, Barna- og unglingaleikhúsi Mosfellsbæjar og er í ár skipað yfir 30 unglingum sem hafa æft stíft frá því 8. júní og unnið þessa sýningu af einstökum áhuga og metnaði sem ætti að hrífa alla með sér. Leikstjóri er Agnes Þorkelsdóttir Wild, danshöfundur Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm og tónlistarstjóri Sigrún Harðardóttir.

Söngleikurinn Fúttlús segir frá Aroni, 16 ára strák sem flytur með mömmu sinni í smábæ úti á landi. Það sem tekur á móti honum þar er svo sannarlega allt annað en hann var vanur í stórborginni þar sem hann var alinn upp. Bænum er haldið í heljargreipum af sóknarpresti bæjarins, Séra Kristófer, sem hefur bannað ýmislegt sem myndu alls staðar teljast sjálfsagðir hlutir, þar á meðal dans. Aron, sem er kjarkaður borgargæi, lætur ekki bjóða sér upp á slík boð og bönn og fær krakkana í menntaskóla staðarins með sér í lið til að berjast með sér. Berjast fyrir frelsinu til að vera ung! Aron kynnist og fellur fyrir dóttur prestsins, Evu, sem aðstoðar hann í baráttunni. Vinkonur hennar og sveitapeyjinn Mikki standa einnig þétt við bakið á Aroni ásamt fleiri krökkum úr bænum.

Söngleikurinn er fullur af fjöri og tónlist. Lögin úr sýningunni ættu að vera flestum að góðu kunn. ,,Sá eini sanni“ (Holding Out For a Hero), ,,Ég fíla þennan gaur“ (Let’s Hear it For the Boy), ,,Allir að fylgjast með“ (Somebody’s Eyes), titillagið ,,Fúttlús“ (Footloose) ásamt fleirum skapa gríðarlega kraftmikla stemmningu og mikið stuð!

Næstu sýningar:
3. sýning – föstudagur 14. ágúst 2009 kl. 20 – Uppselt
4. sýning – laugardagur 15. ágúst 2009 kl. 16
5. sýning – miðvikudagur 19. ágúst 2009 kl. 20
6. sýning – föstudagur 21. ágúst 2009 kl. 20

MIÐASALA FER FRAM Í SÍMA 566-7788

{mos_fb_discuss:2}