Höfundur Örn Alexandersson
Leikstjórn Sigrún Tryggvadóttir
Ljós Skúli Rúnar Hilmarsson 
Leikmynd Þorleifur Eggertsson 
Hljóð Hörður Sigurðarson

Þann 16. september síðastliðinn frumsýndi Leikfélag Kópavogs nýtt íslenskt leikrit, Snertu mig – ekki, eftir Örn Alexandersson. Þetta var á degi íslenskrar náttúru en hún kemur þó ekki við sögu í leikverkinu, umfjöllunarefnið er þvert á móti náttúruleysi, nánar tiltekið kynferðislegt getuleysi hjá miðaldra Íslendingi. Örn Alexandersson er gamall innanbúðarmaður hjá Leikfélagi Kópavogs og þar hefur hann afrekað flest sem hægt er að afreka í einu leikhúsi, en það verður ekki rakið hér. Örn hefur skrifað tvö barnaleikrit og fjölda leikþátta sem sýndir hafa verið í Kópavogi og víðar. Snertu mig ekki er ekki leikrit í fullri lengd en tekur um klukkutíma í sýningu án hlés. Á vef LK er verkið kynnt sem gamandrama, sem má til sanns vegar færa en þó var hinn dramatíski þáttur ráðandi en grínið sínu hófstilltara. Umfjöllunarefnið er sem fyrr segir kynkuldi í hjónabandi sem stafar af einhverjum óútskýrðum ástæðum, annaðhvort líkamlegum eða sálrænum, og hvernig hjónin takast á við vandamálið. Ég held að það sé óhætt að segja að þau fara ekki fagmannlega að og auka á kvalræði hvors annars í öllum sínum viðbrögðum gagnvart tilfellinu. Vinkona þeirra hjónanna kemur nokkuð við sögu, full af vilja til að vera til hjálpar en er sorglega vanmáttug í þeim efnum og ef nokkuð er þá eykur hún á erfiðleikana. Þetta er skemmtileg pæling um vanda sem margir þekkja eflaust til annað hvort á eigin skinni eða af afspurn. Leikritið svarar hins vegar ekki spurningunni um hvernig ráða skuli fram úr svona krísu en skilur þess í stað eftir fjölda spurninga sem áhorfendur fara með heim og geta velt fyrir sér. Ég get til dæmis ekki svarað því hvort leikritið endaði vel eða illa. Samt var endirinn afgerandi.
Leikararnir í sýningunni eru aðeins þrír, Arnfinnur Daníelsson og Guðný Hrönn Sigmundsdóttir, sem leika hjónin og Anna Margrét Pálsdóttir, sem leikur vinkonuna. Öll leysa þau verk sitt vel af hendi en Arnfinnur þó sínu best. Hann er líka með bitastæðasta hlutverkið, náttúrulaus fyrirmyndareiginmaður, fullur af komplexum og mótsögnum. Guðný Hrönn er sannfærandi í sínu hlutverki, kynsvelt og ráðvillt og henni tókst að halda áhorfendum í fullkominni óvissu um hvort hún væri á dúndrandi karlafari á kvöldin eða hvort það væri allt blekkingaleikur og haugalygi. Anna Margrét heldur uppi hinum kómíska þætti sýningarinnar og tekst oft vel til þótt hlutur hennar sé minni en hinna.
Sýningin er fagmannlega unnin, leikmyndin hrein og einföld, venjuleg en svolítið náttúrulaus íbúð venjulegs fólks í nútímanum. Búningar eru smekklegir og fjölbreyttir. Lýsingin var þannig að maður tók varla eftir henni, sem þýðir líklega að vel hefur verið að verki staðið. Tónlist og hljóðvinnslu veitti maður hins vegar athygli, stundum ögrandi, stundum róandi.
Leikstjórnin er góð, vel er gætt að viðkvæmu samspili og tilfinningalegri togstreitu persónanna, framsögn og undirtexta.
Áhorfendur klöppuðu leikurum, leikstjóra, höfundi og öllum aðstandendum lof í lófa í lok sýningar og voru sýnilega ánægðir með þessa kvöldstund. Það var undirritaður einnig en hefði þó alveg verið til í að sitja lengur og sjá meira af þessum ágætu hjónum í Kopavoginum og vinkonunni kæru og vandamálum þeirra.

Árni Hjartarson