Snæbjörn Brynjarsson, leikhúslistamaður og rithöfundur, frumsýndi verkið Swampclub 4. júní sl, með virta franska leikhópnum Vivariumstudio í Vínarborg. Verkið er samstarfsverkefni milli hátíðarinnar Vienna Festwochen (Vínar-leiklistarhátíðin) og nokkura franskra leikhúsa auk leikhópsins Vivariumstudio. Framundan er mikill túr með verkið, en eftir Vínarborg eru sýningar í Þýskalandi, Sviss, Frakklandi, Belgíu og Lettlandi svo nokkur dæmi séu nefnd.

Vivariumstudio hefur verið starfrækt í 10 ár. Leikstjóri og aðalhugmyndasmiður hópsins Philippe Quesne leggur mikla áherslu á samspil manns og náttúru, gerviveröld nútímans á móti raunveruleikanum. Leikhópurinn hefur þróað verk fyrir listagallerí, almenningsrými á borð við garða og skóga, auk sjö leikverka. Verkin sækjast ekki eftir að skapa tilfinningaleg viðbrögð heldur miklu frekar búa til athyglisverðar myndir. Absúrd aðstæður skapast með vísunum í önnur listaverk, vísindakenningar og stundum pólitískum vísunum í umhverfisbaráttuna, en verkin hafa öll sterkt samspil milli manns og náttúru, gerviveröld á móti raunveruleikanum.

Swamp Club segir frá listamiðstöð út í miðjum fenjum. Sérvitrir og örlítið ofsóknarbrjálaðir listamenn dvelja þar, en miðstöðin er stöðugt ógnað af einhverju ókunnugu afli. Sviðsmyndin er aðalsöguhetjan, en hópurinn hefur fengið mikið lof fyrir frumlegar myndrænar framsetningar. Upp á sviði er heilt hús, ásamt hæð þar sem risavaxin moldvarpa býr.
Snæbjörn leikur íslenskan rithöfund sem kemur til þess að vinna í fenjunum. Að mörgu leyti má segja að áhorfendum sé boðið að upplifa fenin í gegnum augu hans, pólska dansarans Ola Maciejewska, og Cyril Gomez-Mathieu, en þau þrjú koma í vinnuferð og upplifa fenjasvæðið hvert á sinn hátt.

Það er engin hefðbundin leiktúlkun eða karaktersköpun í gangi. Listamennirnir tala um sín eigin verk. Til dæmis fara öll samtöl Snæbjörns við hópinn fram á blöndu af íslensku og ensku, en hann talar um sín eigin skrif og hvaðan hann sækir sinn innblástur.

Snæbjörn Brynjarsson er menntaður á Íslandi í leiklist (fræði og framkvæmd) frá Listaháskóla Íslands. Snæbjörn hefur skrifað nokkur leikrit og eina skáldsögu, en fyrsta bók hans Hrafnsauga sem hann skrifaði í samstarfi við Kjartan Yngva Björnsson hlaut íslensku barnabókaverðlaunin. Í Swampclub ræðir hann meðal annars það samstarf og hvernig gengur að skrifa framhaldið.
Á milli þess sem Snæbjörn sýnir Swamp club á hátíðum í Evrópu situr hann að skrifum í Tranzilvaníu þar sem hann og Kjartan vinna að framhaldi bókarinnar Hrafnsauga.

Snæbjörn hefur áður aðstoðað Philippe Quesne við gjörninga, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er partur af heilu leikverki með hópnum.