Föstudaginn 30. október frumsýndi Leikfélag Keflavíkur í samstarfi við Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja söngleikinn Slappaðu af eftir Felix Bergsson í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð. Danshöfundur er Bryndís Einarsdóttir. Verkið gerist á 7. áratug síðustu aldar en það voru miklir umbrotatímar á Íslandi eins og annars staðar í heiminum. Við sögu koma ást, hatur, sorg, gleði, vinstri, hægri, Rússland, Bandaríkin, karlemba og kvenréttindi!
Þegar LK og NFS tóku ákvörðun um að vinna saman að uppsetningu kom aldrei annað til greina en að verkefnið yrði söngleikur með leikurum frá hvoru félagi 16 ára og eldri. Svo vitnað sé í orð leikstjórans þá er unga fólkinu á Suðurnesjum er ekki fisjað saman „ Að vísu reyndi ég að hræða þau alveg miskunnarlaust með því hvaða ströngu kröfur væru gerðar til þeirra sem kjósa að standa á sviðinu og bera uppi heila leiksýningu með leik, söng og dansi en allt kom fyrir ekki. Þau voru staðráðin í að láta kylfu ráða kasti og ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Það krefst þolinmæði að æfa svona verk en á móti kemur að í sýningu eins og Slappaðu af, þá fá allir tækifæri til að láta ljós sitt skína og nýta hæfileika sína sem best“ segir Valgeir. Hann segir að með samstarfi við gamalgróið leikfélag eins og Leikfélag Keflavíkur sem hefur margvísleg afrek að baki sé hægt að láta verkefnin ganga upp. Í sama streng taka forsvarsmenn leikfélaganna beggja og segja samstarfið hafa gengið mjög vel í alla staði. Sýningin hefur hlotið mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda enda mikill kraftur og fjör frá upphafi til enda.
Næstu sýningar eru:
Fimmtud. 11. nóv. kl. 20.00
Föstud. 12. nóv. kl. 20.00
Sunnud. 13. nóv. kl. 20.00
Miðapantanir eru í síma 4212540.
{mos_fb_discuss:2}