Heildaráhorfendafjöldi sjálfstæðra dans, og atvinnuleikahópa á síðasta leikári var rúmlega 217 þúsund áhorfendur innanlands og erlendis en alls voru sýndar 104 uppfærslur á vegum þessara hópa á þessu tímabili. Það er 20% auking milli ára sem verður að teljast framúrskarandi árangur á þeim miklu samdráttar tímum sem eiga sér stað í öðrum starfsgreinum á Íslandi. Þar af sýndu sjálfstæðu sviðslistahóparnir 192 sinnum fyrir 65.300 áhorfendur erlendis en það er um 30% af heildaráhorfendafjölda sjálfstæðu hópanna.
Sjálfstæðir hópar hafa verið í gríðarlegri útrás undanfarin ár með sýningar sínar og ljóst að orðsporið fer víða og eftirspurn eftir sjálfstætt starfandi sviðslistafólki og hópum frá Íslandi er mikil. Skemmst er að minnast viðurkenningar Vesturports í apríl sl. þegar hópurinn fékk Evrópsku leiklistarverðlaunin í flokknum: New Theatrical Realities.
Eftir efnahagshrunið datt aðsókn að sýningum sjálfstæðra hópa niður á Íslandi og opinber fjárframlög voru jafnframt skorin niður. Það var því nauðsynlegt að finna nýja markað og efla tengslanetið við aðra hópa erlendis. Árangurinn af þessu hefur verið ótrúlegur en leikárið 2008-2009 voru sjálfstæðir hópar með fleiri áhorfendur erlendis en innanlands. Jafnframt hefur orðið auking í umsóknum sjálfstæðra hópa í erlenda styrki en forsendan fyrir þeim er samstarf milli landa og innlend fjármögnun að hluta, sem gleymist oft þegar verið er að ákveða skiptingu á opinberu fjármagni til skapandi greina. Það er því mikilvægt að efla sjóði sem sjálfstæðir sviðslistahópar geta sótt í hér heima til að skapa þeim tækifæri á að sækja um erlendis.
Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á leiklistarlögum og vonast Sjálfstæðu leikhúsin eftir leiðréttingu á starfsumhverfi sjálfstæðra atvinnuhópa sem á eftir að skila sér í aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið og sviðslistaumhverfið í heild.
{mos_fb_discuss:3}