Þann 14. september hefjast sýningar á Skrímslið litla systir mín í Leikhúskjallaranum í Þjóðleikhúsinu. Höfundur, hönnuður og flytjandi er Helga Arnalds en leikstjóri og meðhöfundur Charlotte Böving. Skrímslið litla systir mín er sögustundarsýning Þjóðleikhússins og munu því öll 5 ára börn koma að sjá verkið. Boðið verður upp á opnar sýningar fyrir almenning um helgar í september en aðeins þrjár sýningahelgar. Skrímslið litla systir mín hlaut Grímuverðlaunin árið 2012 sem besta barnaleiksýningin.

Litla skrímslið systir mín var frumsýnt í Norræna húsinu í febrúar 2012, en hér er sögð saga af strák sem hefur nýlega eignast litla systur. Hann kemst fljótlega að því að hún er ekkert venjulegt barn heldur skrímsli sem ætlar að éta mömmu hans upp til agna og kannski bara allan heiminn. Strákurinn leggur af stað í ferðalag gegnum skuggalega skóga, um dimmar drekaslóðir, alla leið út á heimsenda og lærir í leiðinni að elska litlu systur sína.

Sýningin hlaut fádæma góðar móttökur frá upphafi. Bæði gagnrýnendur og áhorfendur lofuðu sýninguna mjög og hlaut hún fullt hús stjarna gagnrýnenda og var, eins og áður segir, valin besta barnaleiksýningin á Grímunni 2012. Aðferðin sem notuð er í sýningunni er afar óvenjuleg og vel heppnuð, en hún er öll unnin úr hvítum pappír. Umfjöllunarefnið – sterkar tilfinningar barna sem eignast lítil systkini – er líka eitthvað sem  margir foreldrar og börn eru að glíma við á hverjum degi. Saga um það hvernig maður getur lært að elska – jafnvel lítil skrímsli!

Boðið er upp á vinnustofu fyrir krakka eftir sýningu þar sem unnið er með pappírinn sem notaður er í verkinu. Sýningin er ætluð börnum frá 3 til 9 ára.

Miðasala er á www.midi.is og midasala@leikhusid.is