Jón Gunnar Þórðarson skrifar um tilurð Djáknans á Myrká.

Þegar ég kynntist bændunum úr Hörgárdal höfðu þeir hug á að afklæðast í leikritinu Með fullri reisn og vildu ráða mig til að leikstýra. Sú hugmynd var skondin og skemmtileg en ég vildi síðar setja upp Djáknann á Myrká. Það var samþykkt. Og nú er verkið að lifna við.

Maður þarf ekki að vera lengi í Hörgárdalnum til að finna fyrir skáldagyðjunni, náttúran kallar á sögur. Getur það verið rétt að það sé einhver sérstök andagift í Hörgárdalnum?

Hannes Hafsteinn frá Möðruvöllum, Kristján frá Djúpalæk, Ólöf frá Hlöðum, Vatnsenda-Rósa frá Fornhaga, Jón Þorláksson frá Bægisá og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Ef þau hefðu öll verið uppi á sama tíma, hefðu þau verið í Leikfélagi Hörgdæla? Jónas Hallgrímsson hefði einnig verið gjaldgengur því hann var frá Öxnadal.

djakninn2Þetta er lyginni líkast og því skylda mín að kynna mér verk þeirra áður en ég hófst handa á Djáknanum. Í verkinu Djákninn á Myrká fæ ég lánuð kvæði eftir þjóðskáld úr dalnum. Ég nýti brot úr Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson, erindi úr vísum Vatnsenda Rósu og kvæði eftir Kristján frá Djúpalæk. Þjóðskáldin gefa sögunni enn meiri dýpt en ekki er ólíklegt að skáldin hafi öll orðið fyrir áhrifum af Djáknanum á Myrká.

Þjóðsagan er ein sú þekktasta sem við Íslendingar eigum. Það sem heillar mig hvað mest er ástarsagan í verkinu og drunginn á bak við draugasöguna; galdrarnir og togstreitan milli góðs og ills. Einnig verður maður hugfanginn af efninu vegna þess að í því felast svo mörg sannleiksgildi. Í mörgum þjóðsögum og Íslendingasögum er verið að leika sér með og ýkja staðreyndir, þá ekki síst  vegalengdir. Menn hlupu særðir þvert yfir landið til að hefna harma o.s.frv. En í þessari sögu ríður Djákninn frá Myrká að Bægisá og á leiðinni til baka fellur hann í Hörgá við Þúfnavallarnesið. Síðastliðið sumar reið leikfélagið þessa leið, reiðtúrinn tók ekki nema tvær klukkustundir, þó með góðum vískístoppum. Þessar staðreynir eru fyrstu vísbendingarnar um að hér hafi eitt sinn verið djákni sem varð ástfanginn af Guðrúnu á Bægisá en fallið í ánna og orðið af því örendur.

Til að komast að því hver Djákninn var þarf að spyrja spurninguna, hvenær gerðist sagan? Djáknar tilheyrðu kaþólskum sið og voru einungis í Hörgárdalnum fram að siðaskiptum. Þannig að sagan gerist fyrir 16.öld. Það voru þó ekki margir djáknar á ferð því kirkjurnar höfðu presta og djáknarnir voru helst sendir annað hvort í erindargjörð fyrir biskup eða til að aðstoða aldraða presta. En þeir dvöldust sjaldnast lengi á bæjunum, heldur fóru á milli. Séra Pétur Nikulásson, danskur munkur frá Vatíkaninu, var biskup á Íslandi 1391 – 1411. Árið 1394 sendi hann djákna Böðvar Ögmundsson í Hörgárdalinn að Bægisá til að víkja sera Guðbjarti Flóka Ásgrímssyni, prestinum á Bægisá, úr embætti því hann hafði gert eina stúlku úr sókninni þungaða. Djákninn kom með kaupmálann að Bægisá og flutti prestinn úr starfi en frilla prestsins, Þorbjörg að nafni, eignaðist búið. Þetta var fyrsti lögbundni kaupmálinn á Íslandi og líkast því sem síðar nefndust skilnaðir. Á þeim tíma voru vinnukonur á bænum, þær Ingibjörg og Guðrún. Þetta eru fyrstu kynni Guðrúnar og djáknans Böðvars Ögmundssonar. Djákni þessi stundaði nám í Hólaskóla og varð skólameistari á Hólum ungur að árum en dó skyndilega, hann hvarf, ekkert er vitað um dauðdaga Böðvars.

djakninn_gudrunÞegar ég fór að grennslast til um vin okkar hann Böðvar langaði mig að kynnast skólabræðrum hans enn nánar, þeim Lofti Guttormsyni og Þorkeli Árnasyni. Loftur ríki Guttormsson (f. um 1375, d. 1432) var íslenskur höfðingi, sýslumaður, hirðstjóri og riddari á 15. öld. Hann settist að á Möðruvöllum og er honum lýst sem kvensömum manni. Séra Pétur Nikulásson biskup sendi Þorkell Árnason í betrun á Laufási í Skagafirði eftir að hann var ásakaður um að hafa stundað Svarta Galdur. Líklegt má teljast að Þorkell sé sá særingarmaður sem sent er eftir til að kveða niður drauginn í þjóðsögunni.

Hvað varðar leikmyndina höfðum við upp á klukkunni úr kirkjunni á Myrká sem var rifin árið 1911, vegna þess að það vantaði eldivið í sveitinni. Kirkjuklukkan í leikmyndinni er sennilega sú sama og Guðrún hringdi við sáluhliðið árið 1394. Eftir að hafa greint frá klukkunni í sjónvarpsþættinum landanum var hringt og látið vita af því að dyrnar úr kirkjunni gemyndust að Þverá. Þær dyr hanga nú til sýnis í andyri leikhússins að Melum.

 

Ég tel að sagan um Djáknann á Myrká hafi gerst árið 1394, nánar tiltekið frá 13. desember -27. desember 1394. Ein undarleg staðreynd sem ég hef þó ekki í leikritinu er sú að 27. desember 1394 kom stormur, Hólakirkja fauk og hvert tré brotnaði og varð þar engu bjargað nema líkneskjum og helgum dómum. Þetta hefur verið þann sama dag og Þorkell var að kveða niður drauginn og Hörgdælingar kvörtuðu yfir drauganginum.

djakninn_hopurÁrið 1402 geisaði plágan mikla, Svarti dauði, og mennskt líf í Hörgárdal nánast þurrkaðist út.  Eftir pláguna tók kirkjan yfir flestar jarðir í dalnum en Loftur Guttormsson snéri heim eftir dvöl í Björgvin og erfði það sem kirkjan tók ekki. Loftur fékk viðurnefnið Loftur Ríki. Allt eru þetta sannleiksgildi og hægt er að segja að Djákninn á Myrká sé byggður á sönnum atburðum. En skáldskapur er þetta engu að síður og því er farið nokkuð frjálslega með staðreyndir.

Sagan af Djáknanum á Myrká er orðin að veruleika, njótið!

Djákninn á Myrká lifir. Takk fyrir Leikfélag Hörgdæla fyrir að treysta mér fyrir þessu epíska verkefni.

Jón Gunnar Th, leikstjóri og höfundur.