Leikfélagið Peðið frumsýnir rokkkabarettinn Skeifu Ingibjargar eftir Benóný Ægisson á efri hæð Grand Rokk, laugardaginn 7. júní klukkan 15.00. Verkið fjallar um Ingibjörgu, stórfrænku Jóns forseta og síðar konu hans, sem beið sjö ár í festum eftir því að Jón giftist henni. Á meðan á biðinni stóð kom hún sér upp rosalegustu skeifu sem höfundur hefur séð á ljósmynd og varð hún honum innblástur að ritun verksins.

Fjölnismenn, ástmögurinn Nasi Hall og dæmdir glæpamenn í Höfn koma einnig við sögu en síðan er hoppað hundrað ár eða svo í tíma og leitast við að skilgreina hvernig nútíma Íslendingar hafa varðveitt þann þjóðararf sem við fengum frá ofangreindum. Tónlist skipar stóran sess í verkinu og er hún eftir þá Benóný Ægisson, Björgúlf Egilsson, Einar Vilberg Hjartarson og Örn Karlsson.

Leikfélagið Peðið er eina barleikfélagið sem starfrækt er í Reykjavík en að því standa fastagestir og velunnarar Grand Rokk. Fyrsta verkið sem félagið setti upp var leikritið Lamb fyrir tvo eftir Jón Benjamín Einarsson árið 2005 en síðan hefur Peðið sett upp tvö verk á ári, þar af þrjá söngleiki. Skeifa Ingibjargar er stærsta verkefnið sem leikfélagið hefur ráðist í en alls taka 17 manns þátt í uppfærslunni.

Leikstjórar eru Lísa Pálsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson og fyrirhugaðar eru fjórar sýningar á verkinu fyrir utan frumsýningu, 11.–14. júní kl. 20.00.

{mos_fb_discuss:2}