Ég minnist þess þegar ég í bernsku sá bíómyndina Bugsy Malone, hvað mér þótti hún ofboðslega skemmtileg. Bæði þótti mér hún fyndin og svo var tónlistin sérlega grípandi og góð. Því miður gafst mér ekki kostur að sjá verkið á sviði fyrr en eftir að ég komst til vits og ára en get vel ímyndað mér að það sé mjög spennandi fyrir yngri kynslóðina með sínum rjómatertubardögum, gangsterum og ofurpíum. Ég sá hins vegar uppsetningu Guðjóns Sigvaldasonar á verkinu með unglingadeild Leikfélags Hafnarfjarðar fyrir u.þ.b. áratug og skemmti mér að mig minnir ágætlega. Það var því gaman að fá tækifæri til að sjá aðra uppsetningu hjá Guðjóni, í þetta sinn hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs.

Það er örugglega ekki oft sem jafn margir hafa stigið á svið í einni leiksýningu hér á landi eins og í Valaskjálf á laugadagskvöldið því alls eru leikarar í Bugsy Malone 59, auk fimm manna hljómsveitar. Það var því oft þröngt á þingi og óreyndir leikararnir kannski ekki alltaf algjörlega einbeittir á sviðinu frekar en við var að búast. Guðjón hefur líka greinilega nokkrum sinnum gefið grænt ljós á grófan senuþjófnað einstakra leikara sem voru oftar en ekki fyndnir en tóku jafnframt alla athygli frá því sem raunverulega var að gerast í sýningunni. Þrátt fyrir ágæta umferðarstjórnun leikstjóra var aðeins um það að senuskiptingar drægjust á langinn en eflaust var það að mestu leyti tilfallandi og skrifaðist á frumsýningarstress. Skortur á rjómavélbyssum hér á landi skapar auðvitað vandamál þar sem þær eru mikilvægar fyrir plott verksins og hér var sú leið farin að nota nýstísku vatnsbyssur sem voru talsvert stílbrot á útliti sýningarinnar. E.t.v. hefði þá verið snyrtilegra að nota eingöngu vatnsbyssur og sleppa alveg rjómanum sem stundum var notaður.

Sú skemmtilega leið er farin í sýningu LF að „vondi bófinn“ Daníela snobb og gengi hennar er eingöngu skipað stelpum en Sammi feiti og hans góðhjörtuðu en vonlausu gangsterar voru strákar (þótt sumir væru leiknir af stelpum). Bófaforingjarnir voru ágætlega leiknir af Aðalheiði Rós Baldursdóttur og Jóhanni Má Þorsteinssyni, sérstaklega var Aðalheiður skemmtileg sem ofurtæfan Daníela. Leikritið stendur auðvitað og fellur með leikaranum í titilhlutverkinu og Jón Vigfússon stóð sig með miklum ágætum sem Bugsy og þá ekki síður Sigurveig Stefánsdóttir sem Blúsí Brún, hans heittelskaða. Hún söng líka af miklu öryggi og það gerði Tinna Björk Guðjónsdóttir einnig sem tálkvendið Talúla. Aðrir stóðu sig almennt ágætlega í minni hlutverkum.

Dans og söng atriði voru almennt ágætlega útfærð þótt nokkurs óöryggis gætti í sumum söngatriðum. Hljómsveitin stóð sig mjög vel og tónlistarstjórn greinilega í öruggum höndum hjá Freyju Kristjánsdóttur. Öll umgjörð var líka hin prýðilegasta, leikið var á tveimur hæðum og veitti ekki af þegar hvað fjölmennast var á sviðinu. Í heildina er sýning Leikfélags hin dægilegasta skemmtun og tvímælalaust mikið afrek að koma upp sýningu með þetta mörgum óvönum leikurum. Vonandi nýtur leikfélagið góðs af kröftum þeirra í framtíðinni.

Ármann Guðmundsson

PS: Ég óska Leikfélagi Fljótsdalshéraðs líka til hamingju með að nýtt sveitarfélag ákvað að laga sig að nafni leikfélagsins!