Fimmtudaginn 19.október kl. 20.00 og föstudaginn 20.október kl. 20.00 sýnir Cinnober leikhúsið frá Gautaborg leikritið Suzannah eftir Jon Fosse á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins.
Leikritið fjallar um Súsönnu Ibsen sem í 48 ár var eiginkona norska skáldjöfursins Henriks Ibsens. Höfundurinn kallar verkið einleik fyrir þrjár leikkonur. Einleikurinn skiptist milli þriggja radda, sem endurspegla líf Súsönnu á þremur aldursskeiðum hennar, þegar hún er ung kona, miðaldra og gömul.
Leikstjórinn Svante Aulis Löwenborg hefur sagt að verkið sé ný tegund tónleikrits þar sem tónlistin tekur stundum völdin af orðinu. Tónlistin sem er mjög ríkur þáttur í verkinu er samin af Atla Ingólfssyni og í sýningunni er hún flutt af Göteborgs Kammarsolisterna sem er skipuð átta hljóðfæraleikurum en þeir eru á sviðinu allan tímann ásamt leikkonunum þremur.
Sara Estling leikur Súsönnu unga, Helén Hansson leikur hana miðaldra og Lena Nordberg leikur hana á efri árum.

Súsanna Ibsen var fædd 1836 og lést 1914. Um hana og líf hennar eru ekki til  miklar heimildir. Bergliot Ibsen sem giftist Sigurði, syni þeirra Ibsenhjóna, skrifaði bók um fjölskylduna sem hún nefndi De tre eða Þau þrjú en sú bók er í  flokki þekktustu endurminningabóka Norðmanna. Bókin dregur upp frekar jákvæða mynd af fjölskyldu norska skáldjöfursins, en lýsingarnar á Súsönnu eru þó ólíkar öðrum lýsingum sem til eru af henni. Í bókinni er henni lýst sem gáfaðri og víðsýnni konu með mikla kímnigáfu, sem tókst einkar vel að bregðast við og kljást við þá erfiðleika sem komu upp innan Ibsen fjölskyldunnar. Þrátt fyrir veikindi sín, hélt hún fjölskyldunni saman alla tíð, en hún þjáðist um árabil af kvalarfullri liðagigt. Til að vinna gegn veikindunum, stundaði hún fjallgöngur með Sigurði syni sínum og dvaldi langdvölum á  heilsuhælum. Súsanna var lömuð af gigt síðustu æviár sín.
 
Súsönnu hefur oft verið lýst sem harðgerðri og strangri konu, sem hélt Ibsen frá óæskilegum félagsskap og negldi hann niður við skrifborðið. Áður en þau kynntust, átti Ibsen í verulegum vandræðum með að skipuleggja tíma sinn og vinnu, hann þótti vonlaus í mannlegum samskiptum og drykkfelldur. Það var ef til Súsönnu og ,,hörku" hennar að þakka að fjölskyldan komst af og átti í sig og á, því það var ekki fyrr en Ibsen var kominn langt yfir miðjan aldur að skrif hans gáfu einhverjar tekjur af sér.
 
Í leikriti sínu um Súsönnu, notast Jon Fosse að stórum hluta við allar heimildir sem til eru um ævi hennar. Leikpersónan Súsanna á í erfiðleikkum með að skilja  hvers vegna Henrik er á stöðugum flótta undan ábyrgð og skyldum. Í uppsetningu Cinnoberleikhússins er reynt að nálgast þá Súsönnu sem allt of lítið er vitað um og þar leikur tónlist Atla Ingólfssonar afar stórt hlutverk. Atli fékk algerlega frjálsar hendur þegar kom að tónlistinni, einu skilyrðin sem honum voru sett, voru að tónlist og texti léku jafn stór hlutverk við túlkun verksins, sem fjallar aðallega um tímann og fjarveruna, sem getur reynst erfitt að túlka á leiksviði, þar sem leiklistin fjallar oftast um að skapa nærveru á leiksviðinu. Í þessu verki er reynt að styrkja nærveru þess sem er fjarverandi eða þess sem ekki er til staðar. Tónlist Atla Ingólfssonar minnir um margt á ryðmann og endurtekninguna sem finna má í verkum Jon Fosse. Þar að auki býr tónlist Atla yfir andstæðum, sem brjóta upp texta Fosses og gefa honum aukið vægi.
 
Cinnoberleikhúsið í Gautaborg hefur lagt sig eftir að leika þau nútímaverk sem eiga ekki greiðan aðgang að leiksviðinu. Með starfsemi sinni vill Cinnoberleikhúsið vekja athygli áhorfenda á þýðingarmiklum leikverkum sem gefa gaum að okkar nánasta umhverfi sem og umheiminum. Hlutverk leikskáldsins í leikhúsinu er að opna nýjar dyr  innan leiklistarinnar. Hvert leikskáld hefur sína eigin rödd sem er einstök og þess virði að hlusta eftir. Það er svo í verkahring leikhússins að koma henni á framfæri við áhorfendur sína með uppsetningum á borð við Súsönnu. Súsanna er þriðja leikritið eftir Jon Fosse sem Cinoberleikhúsið leikur. Hin tvö voru Nogon kjem å komme (Það hlýtur einhver að koma)1998  og Guitarrmannen (Gítarmaðurinn)1999.