Föstudaginn 20. febrúar frumsýnir Leikfélag Selfoss nýtt íslenskt fjölskyldu – og barnaleikrit, Sjóræningjaprinsessuna, eftir Ármann Guðmundsson sem jafnframt leikstýrir verkinu. Ármann semur einnig tónlist verksins ásamt Guðmundi Svafarssyni og söngtexta ásamt Sævari Sigurgeirssyni. Með helstu hlutverk fara Rakel Ýr Stefánsdóttir, Bjarki Þór Sævarsson, Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson og Stefán Ólafsson en 16 leikarar og 4 hljóðfæraleikarar taka þátt í sýningunni.
Leikritið segir frá Soffíu sem alist hefur upp hjá gistihúsinu Sporðlausu hafmeyjunni á friðsælli eyju í Suðurhöfum allt frá því að hún kom þangað með dularfullum hætti sem ungabarn. Ólíkt Matta uppeldisbróður sínum þráir hún að lenda í ævintýrum og heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjóræningjaprinsessa, fósturforeldrum sínum til mikillar armæðu. En svo gerist það eitt óveðurskvöld að tveir grunsamlegir náungar skjóta upp kollinum á Sporðlausu hafmeyjunni og áður en Soffía veit af er hún komin út á rúmsjó með stórhættulegum sjóræningjum á leið til Milljónmaðkaeyju þar sem mannætur ráða ríkjum…
Ármann Guðmundsson hefur skrifað um annan tug leikrita, ýmist einn eða ásamt fleirum. Hann samdi m.a. ásamt Sævari Sigurgeirssyni og Þorgeiri Tryggvasyni leikritið Klaufar og kóngsdætur sem Þjóðleikhúsið sýndi árið 2005 og einnig hefur hann leikstýrt um tug leikrita hjá áhugaleikfélögum víðsvegar um land. Hann er aukinheldur meðlimur í hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir.
Leikfélag Selfoss hefur verið starfandi í rúmlega hálfan áratug og er verkefnaskrá félagsins viðamikil. Sjóræningjaprinsessan er 68. verkefni félagsins og er jafnframt fimmta verkið sem félagið frumflytur á jafnmörgum árum. Síðasta barnasýning sem sett var upp hjá félaginu var sýningin Óvitar.
Sýnt er í Litla leikhúsinu við Sigtún og hefst frumsýningin kl. 20, önnur sýning er sunnudaginn 22. febrúar og hefst kl. 14. Miðaverð er 1500 kr. og upplýsingar og miðapantanir eru í síma 482-2787 og á leikfelagselfoss@gmail.com