Sigríður Lára Sigurjónsdóttir skrapp um helgina austur fyrir fjall til að sjá sýningu Leikfélags Selfoss á nýju íslensku barnaleikriti, Sjóræningjaprinsessunni sem Ármann Guðmundsson semur og leikstýrir. Hér greinir hún frá þeirri upplifun:

Ég brá mér í leikhús um helgina. Fór við þriðja aðstoðargagnrýnanda að sjá Sjóræningjaprinsessuna hjá Leikfélagi Selfoss. Alltaf gaman að sjá ný barnaleikrit og svona. Auk þess sem sjóræningjaþemað hefur verið algjörlega vanrækt um langa hríð. En leikskáldið og leikstjórinn Ármann Guðmundsson hefur greinilega fengið einhverja flugu í höfuðið um að endurvekja það, á þessum síðustu og verstu, og tekist það ljómandi ágætlega.

Sýningin var lífleg og skemmtileg og fjörleg tónlistaratriði bættu heilmiklu við hana. En bollaleggingar og frásagnir tóku ef til vill heldur langan tíma á stöku stað þar sem talsvert af sögunni gerist í fortíðinni og lendir því sem endursögn í verkinu. Gaman hefði verið að sjá meira af þeim í „aksjón“. Sögur voru þó afar vel sagðar af hálfu leikara sem tókst öllum afar vel að skapa litríkar og skemmtilegar persónur. Stefán Ólafsson var einstaklega skemmtilegur í hlutverki Rommsvelgs og voru þeir Sigurgeir Hilmar skemmtilegt sjóræningjatvíeyki. Guðfinna Gunnarsdóttir var sannfærandi í hlutverki Blóðrauða Rýtingsins og á greinilega framtíð fyrir sér í draginu.

sjoraeningjapreinsessan3.jpgRakel Ýr Stefánsdóttir lék titilhlutverkið og samleikur hennar og hinna krakkanna, Álfrúnar Bjartar Agnarsdóttur (sem lék hinn bráðfyndna Grrrra), Nökkva Jónssonar og Bjarka Þórs Sævarssonar, var ljómandi góður. Ungu leikararnir stóðu sig allir mjög vel með sannfærandi leik og skýrum textaframburði. Kannski hefði reyndar mátt vera meiri sprettur á þeim í mestu hraða- og átakaatriðunum.

Öll umgjörð sýningarinnar var hin ágætasta og gekk vel upp. Ég var reyndar ekki alveg með „raunveruleikann“ í upphafi verksins á hreinu. Hefði kannski verið skemmtilegra ef hann hefði verið nær hinum „raunverulega“ raunveruleika nútímans. En búningar og gervi þóttu mér svakalega flott. Sjóræningjarnir voru einstaklega sannfærandi. (Báru það hreint ekki með sér að vera flestir leiknir af ungum stúlkum.) Og mannæturnar voru flottar.

Það var gaman að sjá hvað leikfélag Selfoss hefur á að skipa mörgum ungum og efnilegum leikurum og telja má að framtíðin sé björt hjá þessu leikfélagi með allt þetta unga hæfileikafólk innanborðs.

Aðstoðargagnrýnendur (þriggja og tólf ára) voru á einu máli um að mannæturnar hafi verið skemmtilegar og spillti það hreint ekki fyrir að þeim heyrðist þær segja "kúka-kúka". Einnig hefur orðið „grrrrr“ verið talsvert notað sem svar við ýmsum spurningum.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

{mos_fb_discuss:2}