Sunnudaginn 1. maí verður leikritið Sindri  silfurfiskur eftir Áslaugu Jónsdóttur í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar , sýnt í síðasta sinn í barnaleikhúsi Þjóðleikhússins, Kúlunni. Í sýningunni er beitt sérstakri ljósatækni til þess að skapa undraveröld hafsins og skrautlegir fiskar, stórir og smáir, synda fyrir augum áhorfandans. Þetta er undurfallegt ævintýri um að það sé allt í lagi að vera öðruvísi en aðrir, og vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er.

Sýningin hlaut tilnefningu til Grímunnar sl. ár og var sýnd á barnaleikhúshátíð í Svíþjóð vorið 2010, þar sem hún fékk frábærar viðtökur.

Sindri syndir aftur til útlanda í vor þar sem sýningin hefur verið valin á dagskrá heimsþings og alþjóðlegrar sviðslistahátíðar fyrir börn og unglinga sem haldin verður í Kaupmannahöfn og Malmö nú í maí. Á þinginu verður fjallað um reynslu barna og unglinga og þá ímynd sem menning hefur í þeirra huga, nýja strauma, gæði og fjölbreyttni í sviðslistum.

Í tengslum við heimsþingið verður haldin leiklistarhátíð með leiksýningum frá fjölmörgum löndum, og er þessi hátíð talin ein sú stærsta og mikilvægasta barna og unglingaleikhúshátíð sem haldin hefur verið.

Sýningunni hefur einnig verið boðið á barnaleikhúshátíð i Moskvu næsta haust.

{mos_fb_discuss:2}