Þjóðleikhúsið hefur fengið boð um að sýna barnaleikritið Sindra silfurfisk eftir Áslaugu Jónsdóttur á barnaleikhúshátíðinni Bibu, sem haldinn verður í Lundi í Svíþjóð dagana 5.–8. maí í vor.

Hátíðin er haldin annað hvert ár og þarna kemur saman barnaleikhúsfólk víða að úr veröldinni til þess að sjá það besta sem hið fjölbreytta sænska barnaleikhús hefur verið að sýna síðustu tvö árin. Einnig hefur verið boðið til hátíðarinnar athyglisverðum sýningum frá öðrum löndum.

Í ár var ákveðið að bjóða einni sýningu frá hverju Norðurlandanna á hátíðina. Sérstök dómnefnd hátíðarinnar hefur verið að störfum í allan vetur til þess að velja úr þeim fjölda tillagna sem bárust og hefur nú komist að niðurstöðu. Frá Íslandi fer sýningin Sindri silfurfiskur sem sýnd hefur verið í Kúlunni, barnaleikhúsi Þjóðleikhússins í allan vetur.

Leikstjóri Sindra er Þórhallur Sigurðsson en þetta er í annað sinn sem hann og höfundurinn Áslaug Jónsdóttir vinna saman að nýju leikriti í Kúlunni. Leikritið Gott kvöld hlaut Grímuverðlaun sem barnasýning ársins 2008, en það var nýlega tilnefnt til norrænu leikskáldaverðlaunanna sem verða einmitt afhent á hátíðinni í Lundi í maí.

Sýningum á Sindra silfurfiski lýkur nú í janúar í Kúlunni, og það eru því síðustu forvöð að sjá þessa fallegu sýningu sem heillað hefur yngstu áhorfendurna sem og þá eldri í vetur.