Það var sannkölluð hátíðarstemming í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi, laugardaginn 10. október þegar stuttverkahátíðin Margt smátt var sett í fimmta sinn. Þau leikfélög sem sýndu voru Halaleikhópurinn, Hugleikur, Leikfélag Hafnarfjarðar, Leikfélag Kópavogs, Leikfélag Mosfellssveitar, Leikfélag Selfoss og Meginfelag áhugaleikara Føroya. Hvorki meira né minna en 18 verk biðu þess að vera leikin; þar af fimm verk frá Færeyjum og var komu Færeyinganna sérstaklega fagnað. Það eitt og sér að þau skyldu komast til Íslands í óveðrinu daginn áður má teljast kraftaverk.

Ennþá meira var þó um vert að þau höfðu lengi undirbúið þátttöku í stuttverkahátíðinni og skrifað og æft fimm verk og mættu með hluta af landsliði áhugaleikara Færeyja. Og þau komu, sáu og sigruðu. Almennt má fullyrða að sýningarnar á þessari hátíð hafi verið jafnari og betur unnar en á nokkurri hátíð áður og munar þar kannske mest um framlagið frá Færeyjum.

Leiklistarfélagið á Seltjarnarnesi skapaði ágætis ramma utan um hátíðina. Sviðið er þokkalega stórt og sviðsbúnaði var haldið í lágmarki þannig að skiptingar gengu hratt og örugglega fyrir sig. En Leiklistarfélagið gerði enn betur því inn í skiptingarnar var skotið örþáttum, vel útfærðum í búningum og ljósi og sem hittu algjörlega í mark. Við setningu hátíðarinnar komu fram nokkrir ungir trúðar í flottum gervum frá Leikfélagi Mosfellssveitar og sýndu hvað þau eru að læra í trúðafræðum. Það er full ástæða til að hvetja þau til að halda áfram og læra meira.

margt_smatt0091.
Meginfelag áhugaleikara Føroya
Ferð mín til Jórsala
eftir Eir í Ólafvsstovu
Leikstjóri:
Ria Tórgarð
Leikendur:
Jytte Joensen, Hilmar Joensen og Høgni Olsen

Eiginkonan kemur heim eftir pílagrímsferð til Jórsala, en hefur orðið fyrir svo miklum áhrifum að hún er orðin eitt með helgisögunum frá svæðinu. Klædd í líndúk sem hún sveipar um sig er hún birtingarmynd kvenna úr biblíusögunum. Ferðataskan er líka svo þung að eiginmaðurinn giskar á að hún sé að minnsta kosti með hálfan grátmúrinn með sér. Eitt og annað hefur hún keypt; klút með blóði Krists, vígt vatn í stórum stíl sem hún gusar yfir eiginmanninn og heimilið. Konan er full af heilögum anda, en eiginmaðurinn vill helst fá hana til við sig eftir langan aðskilnað. Þetta er vel skrifað verk, bráðfyndið, með undirliggjandi ádeilu á ferðamannaiðnaðinn almennt, þar sem hægt er að selja bókstaflega allt, ef það er rétt markaðssett. Meira að segja rifbein úr Jesú Kristi, sem þó augljóslega var úr rollu. Einnig er höfundurinn að fjalla um það hvernig trúin getur blindað fólk, en trúfélög hafa í Færeyjum mörg hver afar sterk ítök og stjórna miklu í samfélaginu. Þátturinn var framsettur með miklum ærslum og stórum andstæðum. Leikararnir fóru á kostum þó þeim tækist ekki alveg að hafa stjórn á hraðanum og veita leikmunum þá virðingu sem þeim bar. En þeim tókst þó svo sannarlega að skemmta okkur.

margt_smatt0142.
Hugleikur
Ár og öld
eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Leikstjóri:
Þorgeir Tryggvason
Leikendur:
Hulda B. Hákonardóttir, Jón Geir Jóhannsson og Rósa Björg Ásgeirsdóttir

Þórunn Guðmundsdóttir er einstök meðal íslenskra leikskálda og hreint með ólíkindum að afurðir úr hennar smiðju skuli ekki löngu vera orðnar útbreiddari á íslenskum leiksviðum en raun ber vitni. Þar fyrir utan ættu þær að vera skyldulesning í skólum og skylduæfingar í öllum leiklistarklúbbum. Snilld hennar felst í samruna margra þátta: Hún er svo flínk að ríma, hún er svo vel heima í öllu sem hefur verið samið á íslensku með stuðlum og höfuðstöfum og líka leirburði. Hún segir okkur sögur sem við þekkjum og þó stöndum við á öndinni af spenningi. Að sjálfsögðu kastar hún á þær splunkunýju ljósi og æðir fram og til baka í tímanum og verður þannig hugleikskari en allt sem hugleikst er. Svo stingur hún á kýlum og út úr glansmyndinni rennur gröfturinn. Og við grenjum af hlátri. Í þessu verki var það nornin úr Þyrnirós sem var í aðalhlutverki og hún rumskar þegar prinsinn hefur barist í gegnum þyrnigerðið. Henni líst svo vel á hinn draumfagra unga mann að hún leggur mikið á sig til að hann komi ekki auga á prinsessuna, sem hrekkur upp af aldarlöngum svefni og skjögrar inn í atburðarásina og hverfur þar undir pilsfald stjúpunnar. Framsetning þáttarins og umgjörð var eins og best gerist. Textameðferð og tímasetningar hárnákvæmar. Hulda Hákonardóttir bjó hér til enn eina ógleymanlega kerlingarskrukku með ísmeygilegu ívafi af óþekkri stelpu sem fær ekki allt sem hana langar í. Nærvera hennar á leiksviðinu er svo kröftug að hún þarf ekki nema að opna annað augað til að fylla sviðið af spennu. Og Jón Geir var þokkafullur draumaprins í orði og í æði. Ég saknaði aðeins að hreyfingamynstur Þyrnirósar var ekki útpælt til samræmis við hin tvö sem gerði hana svolítið utangátta.

margt_smatt0153.
Leikfélag Hafnarfjarðar
Það er góða veðrið
eftir Lárus Húnfjörð
Leikstjóri:
Halldór Magnússon
Leikari:
Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson

Þetta er vel skrifað og áhugavert lítið eintal um einmannaleikann og var eftirminnilega fallega leikið af Guðmundi Lúðvík. Frekar snyrtilegur, svolítið hallærislegur en einlægur maður bíður eftir kynbombunni sem hann mælti sér mót við í gegnum netið. Hann bíður, hlær óöruggur, lítur á klukkuna, sýnir okkur feimnislega myndina af gyðjunni og spjallar við okkur um fyrri misheppnuð stefnumót. Smám saman hættir hann sjálfur að trúa því að hún muni sýna sig, vonleysið og einmanaleikinn taka yfir.

margt_smatt0174.
Leikfélag Selfoss
Góðar stundir
eftir Don Ellione
Leikstjóri:
Maríanna Ósk Sigfúsdóttir
Leikendur:
Stefán Ólafsson, Don Ellione, Sigríður Hafsteinsdóttir, Erla Dan og Rikki G.

Það er enginn sem segir að stuttverk verði að vera í einum þætti, þó svo að maður geri almennt ráð fyrir því og telji það henta forminu betur. Góðar stundir er verk í þremur þáttum, enda gerist það á nokkuð löngum tíma. Þetta er áhugavert verk sem hefur burði til að verða að lengra verki og gæti þá boðið uppá persónusköpun og dýpri pælingu en þessar örstuttu myndir náðu að sýna. Við erum stödd á elliheimili þar sem heilabilaður og heyrnar
lítill karl hlustar á tónlist milli þessi sem dóttir hans heimsækir hann án þess að hafa í raun tíma til þess eða nokkurn sjáanlegan áhuga. Vandamálið er velkunnugt en þó alltaf nýtt fyrir þá sem takast á við það. Unga kynslóðin vill skipta sér af því sem gerist á elliheimilinu án þess að vera í raun nokkurn tíma til staðar. Umsjónarmaður kemur og fer og gefur vélrænar upplýsingar. Karlinn fær líka heimsókn frá góðri, gamalli konu sem styttir honum stundir og þau dansa meira að segja saman. Hún var mjög fallega leikin af Sigríði Hafsteinsdóttur. Leikurinn leið nokkuð fyrir það hvað persónurnar voru svart/hvítar og þau hefðu að ósekju mátt hlusta betur hvert á annað. Það var vel til fundið að hafa fiðluleikara á sviðinu sem framleiddi leikhljóðin, bæði tónlist úr útvarpi og símhringingar.

margt_smatt0215.
Leikfélag Mosfellssveitar
Ástin er hverful
eftir Maríu Guðmundsdóttur
Leikstjóri:
Ólöf Þórðardóttir
Leikari:
María Guðmundsdóttir

María Guðmundsdóttir er glæsileg leikkona sem sópar að á sviði. Leikfélag sem á slíkan fulltrúa af hennar kynslóð er sannarlega öfundsvert. Það er sjaldgæfara en maður heldur. María lék litla skemmtisögu eftir sjálfa sig um ástarsamband sem endar illa, enda kemur í ljós að elskhuginn er ekki ástarinnar verður og ekki í húsum hæfur. Það er ekki fyrr en í blálokin að það rennur upp fyrir manni að hér er ekki um manneskju að ræða heldur kött. Ég saknaði þess, sérstaklega framan af flutningnum, að leikkonan var ekki nægilega innlifuð í frásögnina, minningarnar fengu ekki tíma til að rifjast upp fyrir henni, kvikna í augum og sál, sem hefði gert lýsinguna á upphafi sambandsins meira spennandi fyrir okkur. Annað var svo uppi á teningnum þegar hún var orðin reið, þá dreifðist innlifað neistaflug út um allan sal og kraftur og sjarmi leikkonunnar fékk að njóta sín.

margt_smatt0286.
Meginfelag áhugaleikara Føroya
Avbjóðingin (Áskorunin)
eftir Gullu Øregaard
Leikstjóri:
Ria Tórgarð
Leikendur:
Hanna Flóvinsdóttir og Hjálmar Dam

Tvíburasystkini á táningsaldri eru samvaxin á höndum og nú á að skilja þau að. Þau munu fara sitt í hvora áttina og byrja að lifa lífinu án hins. Þau hlakka til að verða sjálfstæðir einstaklingar en þau eru líka hrædd. Hingað til hafa þau fylgst að við allt og fylgst með hvort öðru nætur og daga. Þau hafa stækkað, þroskast og breyst hlið við hlið. Í stuttri aukasetningu kemur fram að þau hafa haft nánara samband en siðlegt er og það samband gæti átt eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Þetta er vel skrifaður þáttur, fullur af húmor og sársauka. Leikararnir tveir fóru afar vel með hlutverkin, hlustuðu, gáfu sér tíma, reyndu að vera kát, en undir niðri skynjaði maður óttann sem þau leyfðu sér ekki að láta ná tökum á sér. Samstilltar hreyfingar þeirra samvöxnu voru skemmtilega stílfærðar en trúverðugar og mjög vel útfærðar.

margt_smatt0307.
Hugleikur
Bara bíða
eftir Júlíu Hannam
Leikstjóri: Júlía Hannam
Leikendur:
Sigríður Birna Valsdóttir, Jóhann Hauksson, Jóhann Davíð Snorrason, Þórarinn Stefánsson, Árni Hjartarson, Arne Kristinn Arneson og Guðrún Eysteinsdóttir

Fimm persónur sitja fyrir framan luktar dyr og bíða. Eftir Godot? Ef til vill – í öllu falli var Samuel Beckett ekki fjarri þessari hátíð og vel við hæfi að andi hans svifi yfir vötnunum. Þau eru hins vegar búin að bíða nokkuð lengi. Sum eru að missa þolinmæðina, önnur trúa því að hjálpin berist. Sum trúa á sterka manninn. Við vitum ekki hvað er fyrir innan dyrnar og þau vita ekki á hverju þau eiga von. Við skynjum bara að málið er brýnt. Eigum við von á lausn okkar mála þegar dyrnar loksins opnast? Eða verður bara hlegið að okkur? Er það alþjóðasamfélagið eða alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða bara Norðmenn? Hárbeitt úrvinnsla úr samtímanum og frábærlega vel gerð af leikurum og leikstjóra. Skýrar persónur þar sem hvert smáorð og smáhreyfing var hnitmiðuð og nýtt út í ystu æsar.

margt_smatt0378.
Leikfélag Kópavogs
Spott eftir
Hörð S. Dan.
Leikstjóri:
Hörður S. Dan.
Leikari:
Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson

Leikmyndin er kassi. Skyndilega þýtur maður upp úr kassanum. Hann snýr í okkur baki. Íklæddur örlitlum nærbuxum. Honum bregður illilega þegar hann sér áhorfendur. Verður skömmustulegur. Eins og hann hafi verið staðinn að einhverju. Hann segir okkur sögu sína. Stendur þarna horaður og umkomulaus, nánast hreyfingarlaus. Aðeins hendurnar vita ekki hvort þær eiga að reyna að hylja eitthvað eða bara hanga niður með hliðunum. Sagan er af vængbrotnum fugli sem á endanum var traðkaður til ólífis. Umkomuleysi fuglsins og sögumannsins renna saman í eitt þegar hann að lokum skríður aftur ofan í kassann. Þetta var sterk, myndræn saga þar sem fullkomið samræmi var á milli innihalds og frábærs flutnings leikarans.

margt_smatt0389.
Meginfelag áhugaleikara Føroya
Gesturinn
eftir Riu Tórgarð
Leikstjóri:
Ria Tórgarð
Leikendur:
Jytte Joensen, Kári Mouritsen, Barbara Hentze í Stórustovu og Høgni Olsen

Inn í þennan þátt pakkaði Ria Tórgarð á gamansaman hátt þeim fordómum sem vaða uppi í Færeyjum og Færeyingar vita að heimurinn hefur tekið eftir. Það fór ekki framhjá neinum þegar ungur maður í Færeyjum var laminn í klessu á veitingastað fyrir nokkrum árum vegna þess að hann er hommi. Í Gestinum á táningsdóttirin á heimilinu á von á gesti frá Danmörku sem hún kynntist á leiklistarnámskeiði fyrr um sumarið og nú hefur hinn ábyrgi faðir áhyggjur af því að hann ætli að sænga hjá einkadótturinni. Þegar hins vegar kemur í ljós að hann er hommi og hefur engan áhuga á stelpum er það mikill léttir fyrir foreldrana. Hommanum er innilega fagnað og honum boðið að dvelja sem lengst. Þá upplýsir dóttirin að hún eigi kærasta og hann sé einmitt á leið til landsins, en hann er svartur, ættaður frá Afríku. Þá fyrst keyrir um þverbak. Þetta var bráðfyndinn þáttur þar sem leikararnir réðu vel við hraðann í raunsæislegum leik. Taugaáfallið var útfært á stí
lfærðan hátt, þar sem allir snarsnerust í kringum sjálfa sig og sneru sögn leiksins þá upp í þann farsa sem fordómarnir í raun eru.

margt_smatt04410.
Hugleikur
Englar í snjónum
eftir Unni Guttormsdóttur
Leikstjóri:
Sigrún Óskarsdóttir
Leikari:
Hörður S. Dan.

Á leiksviðinu stendur kista og stóll. Hörður kemur inn, sest á stólinn og opnar kistuna. Hægt og hægt pakkar hann upp nokkrum munum úr kistunni og segir okkur hvernig þeir komust í hans eigu um leið og hann segir okkur frá einmanalegum uppvexti sínum. Langyngsta barn foreldranna, sem voru búin að fá leið á börnum þegar hann fæddist og systkini sín þekkti hann varla, þau voru öll flutt í burtu. Foreldrarnir skiptu sér lítið af honum, en hann átti vinkonu í kjallaranum sem vék að honum gjöfum þótt foreldrarnir teldu slíkt algjöran óþarfa. Fullur af þakklæti, án nokkurs biturleika lýsir hann gjöfunum sem alltaf misstu marks; endurskapar gleðina þegar hann fékk þær og biðst í raun afsökunar á því að hokkískautarnir voru of litlir, golfkylfan fyrir örvhenta og borðtennisspaðarnir óbrúklegir án borðs, en einkum þó án leikfélaga. Þá eignaðist hann nefnilega aldrei. Þetta er gullfallegur texti sem nýstir inn í bein. Í útfærslunni var allt mjög hnitmiðað og smekklega gert í takt við textann og Hörður S. Dan skóp ógleymanlega persónu fullkomins æðruleysis og skilnings á eigin aðstæðum.

margt_smatt04811.
Hugleikur
Notaleg kvöldstund
eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Leikstjóri:
Ásta Gísladóttir
Leikendur:
Guðrún Eysteinsdóttir, Rósa Björg Ásgeirsdóttir og Guðmundur Stefán Þorvaldsson

Einnig þetta verk fjallaði um einmanaleikann, en á nokkuð annan hátt. Kona sem hefur ákveðið að eyða kvöldinu við að horfa á dvd mynd getur ekki fengið hana á leigunni nema gefa upp kennitölu. En hún kærir sig ekki um að afgreiðslufólkið komist að því að hún á afmæli einmitt í dag. Þegar afmælissöngurinn glymur úr tölvunni og hamingjuóskirnar dynja á henni opnast allar flóðgáttir og hún ryður úr sér hversu lítil hamingja það sé að verða fimmtíu og eitthvað einstæð og barnlaus. Fyrir nú utan það hvað hún hafi mátt þola af frásögnum vinkvenna í gegnum árin sem allar snerust um börn og barnauppeldi. Fæðingarsögur og bleyjubasl og svo núna þessar yfirgengilega væmnu ömmusögur. Þessi gráglettni gamanleikur hitti þó ekki alveg í mark, því okkur tókst ekki að fá samúð með persónunni. Þegar eintalið innan verksins byrjaði, sem í raun voru hugsanir konunnar, þá hélt hún áfram með nokkuð eintóna biturleika og hið skoplega í frásögninni fór forgörðum.

margt_smatt05312.
Leikfélag Hafnarfjarðar
Svafnþula
eftir Samuel Beckett
Þýðandi:
Árni Ibsen
Leikstjóri:
Lárus Húnfjörð
Leikari:
Guðrún Sóley Sigurðardóttir

Það var óvænt tilbrigði á stuttverkhátíðinni að fá að máta verk eftir nóbelsverðlaunahöfundinn Samuel Beckett í snjallri þýðingu Árna Ibsen við það sem íslenskir og færeyskir höfundar voru að skrifa. Þessi sýning var perla hvar sem á hana er litið. Beckett er einn af stóru meisturunum í leikhúsi fáranleikans og þegar best tekst til við uppfærslu verka hans horfum við beint inn í kvikuna á okkar eigin veruleika í víðasta skilningi. Kona situr í ruggustól og hlustar á endurtekningu sömu frásagnar um eitthvað sem er á leið niður á við. Þegar frásögnin hættir hrópar hún í örvæntingu: „Meira!“. Og frásögnin byrjar á nýjan leik. Aftur og aftur. Sömu orð, kannske í annarri röð. En þó sama niðurstaða, eða hvað? Leikþáttinn má túlka á margvíslegan hátt. Hvað viljum við aftur? Hvers vegna erum við þrælar endurtekningarinnar? Viljum við bara heyra það sem við höfum heyrt áður? osfrv. osfrv. Leikstjórn, túlkun og umgjörð stóðust algjörlega hinar ströngu kröfur textans. Fullkomið samræmi var á milli textaflutnings, hreyfinga og hlustunar leikkonunnar. Vel unnin glíma við form og innihald.

margt_smatt05613.
Hugleikur
Ári síðar
eftir Árna Friðriksson
Leikstjóri:
Hjörvar Pétursson
Leikendur:
Sigurður Pálsson og Sigríður Birna Valsdóttir

Á sviðinu situr berfættur maður í léttum sólarlandafötum og hlustar alvarlegur á dapurlega tónlist. Hann virðir fyrir sér konuna sem kemur inn, hnuggin, kveikir á kerti og gengur aftur út án þess að veita honum athygli. Hann er dáinn. Hann segir okkur brot af sinni sögu. Hann sigraði í raun dauðann, sem lét að vilja hans. Hann vildi fara á undan og er því hamingjusamur maður. Ef til vill eigum við það til að hugsa þannig af biturleika um þá sem yfirgefa okkur of snemma. „Nú situr hann í eilífðarsælu og sól, en ég sit eftir í súpunni og þarf að sjá um allt“. Þögull og sterkur leikur Sigríðar Birnu gaf þó annað til kynna. Sorg og söknuð. Sigurður Pálsson skapaði ágætlega nokkuð margræða persónu og skildi okkur eftir með frekar blendnar tilfinningar til hins framliðna sem geislaði af sjálfumgleði.

margt_smatt06314.
Meginfelag áhugaleikara Føroya
Fanin heldur
eftir Jóhan Ludvík Laksáfoss
Leikstjóri:
Ria Tórgarð
Leikendur:
Høgni Olsen og Hjálmar Dam

Tveir menn, annar hvítklæddur, hinn dökkklæddur sitja á kassa og bíða. Þetta eru Jesús og skrattinn. Þeir eru staddir í eyðimörkinni og sá síðarnefndi reynir allt til að freista hins. Vatn? Brauð? Sólarvörn? Þátturinn er vel skrifaður. Þetta er bráðskemmtilegt og margrætt samtal þessara tveggja höfuðpóla kristinnar siðfræði. Báðar persónur hafa töluvert skopskyn, sem er nokkuð óvenjulegt í öllu falli hvað varðar birtingarmynd Jesú á leiksviði eða í kvikmyndum. Höfundur leikur sér af list með málvenjur og upphrópanir þar sem þessir herramenn koma við sögu. Leikararnir skópu vel útfærðar andstæður með stílfærslu og líkamsmáli. Skrattinn skoraði feitt í frábærri túlkun Hjálmars Dam. Hann var stundum næstum heimilislegur, rétt eins og sá hinn sami úr Gullna hliðinu væri farinn að brúka munn á færeysku. Af hálfu leikstjórnas var þetta einkar stílhreint og vel unnið verk.

margt_smatt06715.
Leikfélag Hafnarfjarðar
Broskallinn
eftir Lárus Húnfjörð
Leikstjóri:
Gísli Björn Heimisson
Leikendur:
Halldór Magnússon, Guðrún Sóley Sigurðardóttir og Kristín Helgadóttir

Broskallinn vil ég telja skilgetið afkvæmi leikhúss fáránleikans. Texti sem má staðsetja í hvaða umhverfi sem er og mikil ábyrgð sett í hendur leikstjórans til að velja leið. Þrjár persónur skiptasta á orðum, án þess í raun að talast við. Tvær sem valdið hafa og taka ákvarðanir. Sú þriðja er undirokuð. Gísli Björn býður okkur inn í fínan heim á yfirborðinu, ógnin er undirliggjandi. Við vitum ekki nákvæmlega hvað er að gerast, en grunar misbeitingu valds, kynferðislega misnotkun og kúgun. Sterkir litir voru notaðir í búningum til að undirstrika vald og hjálparleysi. Það tókst vel að skilja áhorfendur eftir með óhugnaðartilfinningu í brjósti. Þar skipti mestu fínar tímasetningar og stílfærð útfærsla þar sem leikmunir voru ekki til staðar þrátt fyrir töluverða notkun og sterk nærvera leikaranna.

16.
Hugleikur
Sigurvegari eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur
Leikstjóri: Júlía Hannam
Leikendur: Sigurður H. Pálsson, Ásta Gísladóttir og Árni Friðriksson

Það hljómar tónlist úr spiladós. Þrjár persónur ganga inn, gætu verið strengjabrúður. Hver skyldi halda í þræðina? Síðan raða þær sér á verðalaunapall og skála fyrir sigurvegara. Hann lítur þó skyndilega í lægra haldi fyrir hinum tveim og líður útaf, en aðeins stutta stund. Á endanum stendur hann yfir þeim máttvana og gjörsigruðum. Þetta er snjallt stuttverk með tveimur afgerandi hvörfum. Góður fulltrúi leikhúss fáránleikans. Það má túlka á mörgum plönum, enda stútfullt af táknum og tilvísunum í keppni og baráttu manna í millum fram til dagsins í dag. Þessi uppfærlsa Júlíu Hannam var stílhrein og spennandi í alla staði. Hún hélt öllum dyrum og skilningarvitum opnum. Leikur, búningar, leikmunir, litir, textameðferð: allt gekk upp í forminu.

margt_smatt07417.
Meginfelag áhugaleikara Føroya
Auto
eftir Súsönnu Tórgarð
Leikstjóri:
Ria Tórgarð
Leikendur:
Eir í Ólavsstovu, Kári Mouritsen, Hilmar Joensen og Hjálmar Dam

Við erum stödd á miðjum hvunndegi símastúlkunnar á leigubílastöðinni, sem tekur viðstöðulaust við pöntunum og raðar þeim samviskusamlega niður á næsta lausa bílstjóra. Einn bílstjóranna kemur inn, þrumu lostinn. Hann fann lík eins kollega síns í farangursrýminu á bílnum sínum. Hver af hinum bílstjórunum er morðinginn? Síminn hringir án afláts og allt fer í hringavitleysu á meðan þau reyna að ákveða næsta skref í rannsókninni. Þetta var skondinn og bráðfyndinn glæpafarsi og hreint ekki án tilvísunar í sjónvarpsmyndaflokka og glæpasagnaþrá nútímans. Leikararnir, þau Kári Mouritsen og Eir í Ólavsstovu, náðu hæðum í lágstemmdri túlkun persónanna við þessa alvarlegu og ruglingslegu uppákomu. Stílfærð notkun skrifborðsstóla truflaði mig þó og braut upp annars skemmtilega einlæga túlkun leikaranna.

margt_smatt08518.
Halaleikhópurinn

Hærra minn guð til þín eða Prívathagsmunir eiga ekki við hér
eftir Ylfu Mist Helgadóttur
Leikstjóri:
Gunnar Gunnarsson (Gunsó)
Leikendur:
Daníel Þórhallsson, Ásdís Úlfarsdóttir, Þröstur Jónsson, Tobias Hausner, Sólberg R. Haraldsson, Einar Andrésson, Auður Birgisdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Kristinn S. Axelsson, Silja Kjartansdóttir, Telma Kjartansdóttir, Margrét Lilja Arnarsdóttir og Hekla Bjarnadóttir
Kór:
Sigurbjörg Halldórsdóttir, Guðfinna Ásgeirsdóttir og Einar Melax

Á sviðinu er líkkista hulin íslenska fánanum. Kirkjugestir tínast inn og prestur kemur í fullum skrúða. Það er að hefjast jarðarför. Þá geysist inn kona í hjólastól á ógnarhraða og tekur sér stöðu við fyrsta bekk, við hliðina á eiginmanni hinnar látnu. Hún telur sig heppna að ná sæti svona framarlega, það gerist ekki oft. Þó stundar hún jarðarfarir. Hún hefur margt um erfiðleikana við að komast á þennan stað að segja, talar hátt og ásakandi og yfirgnæfir prestinn. Sinnir ekki bón eiginmannsins um að þegja og er að lokum keyrð út úr kirkjunni. Þessi litli þáttur eftir Ylfu Mist er feiknavel skrifaður, fullur af gráglettni og sjálfhverfu. Framsetning Halaleikhópsins var sterkari en orð fá lýst og vinna leikstjórans var flott. Langur aðdragandi. Uppstillingin á sviðinu raunsæ og full af harmi. Jarðarfarasálmur, sunginn raddaður. Og konan truflaði svo óendanlega mikið. Návist hennar var að sjálfsögðu aðalatriðið í jarðarförinni og ekkjumaðurinn skyldi ekki halda að þetta snérist eitthvað um hann prívat. Þau léku snilldarlega, Daníel Þórhallsson sem var eiginmaðurinn og trúði ekki sínum eigin eyrum og augum – hann breyttist í spurningarmerki í orðsins fyllstu merkingu – og ekki síst Ásdís Úlfarsdóttir sem hélt áfram að tala eins og biluð plata á hraðspilun löngu eftir að búið var að keyra hana út úr kirkjunni. Allt hennar æði í hjólastólnum var frábært.

Sigrún Valbergsdóttir

{mos_fb_discuss:3}