Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari bregður sér í hlutverk Sarastrós á einni sýningu á Töfraflautunni í Íslensku óperunni í haust, en það verður á aukasýningunni næstkomandi sunnudag 20. nóvember kl. 16.00. Á öllum öðrum sýningum syngur hins vegar Jóhann Smári Sævarsson hlutverkið, og um helgina syngur ennfremur Hlöðver Sigurðsson hlutverk Annars reglubróður í stað Kolbeins Ketilssonar.

 

 

Bjarni Thor starfar að miklu leyti erlendis og hefur sungið í mörgum helstu óperuhúsum heims. Hann hefur tekið þátt í uppfærslum á Töfraflautunni meira en 200 sinnum á ferli sínum, m.a. í Chicago Lyric Opera, óperunni í Monte Carlo, Teatro Massimo í Palermo og Garnier-óperunni í París. Hann söng síðast í Íslensku óperunni haustið 2009, hlutverk Dulcamara í Ástardrykknum eftir Donizetti, og hlaut Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir hlutverk Osmins í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart árið 2007.

Allra síðustu aukasýningunni á Töfraflautunni hefur verið bætt við laugardagskvöldið 26. nóvember kl. 21.00 og fer miðum á hana óðum fækkandi, en uppselt er á allar aðrar sýningar á verkinu. Alls hafa nærri tólf þúsund miðar selst á sýninguna.