Leikfélag Ölfuss
Enginn með Steindóri
Höfundur: Nína Björk Jónsdóttir
Leikstjóri: F. Elli Hafliðason

Nýjasta stykki Leikfélag Ölfuss er tilþrifamikið verk og ærslafullt. Raunar svo mjög að framan af var undirrituð full efasemda um ágæti þessa. Aðalleikarinn Erla Dan Jónsdóttir hélt uppi fjöri á fjölunum sem oft og einatt keyrðu langt úr hófi. En þegar líður á sýninguna rennur upp fyrir áhorfandanum að Enginn með Steindóri er meira en venjulegt ærslaverk. Það er í því innistæða og táknmyndir og hér klæðir hvort annað, ærslin og ólíkindin.

 

Við erum stödd í villu á Arnarnesinu þar sem hátt standandi miðaldra borgaraleg hjón taka á móti uppkomnum börnum sínum og nýju tengdafólki í heimsókn. Á yfirborðinu er allt slétt og fellt. Þegar samkvæmið er fullskipað höfum við fulltrúa allra íslenskra þjóðfélagshópa. Snopphænsnið, hrappinn, gæruna, skrílinn, mótmælandann að ógleymdum bófanum í hinum ýmsu myndum. Fíflið er ekki leikið af neinum sérstökum. „Hreindýr“ skálmar svo öðru hvoru yfir sviðið en þetta óborganlega en rasíska hugtak er hér notað um erlenda þjónustustúlku sem sér um að halda öllu hreinu. Hreindýrið á svo sannarlega eftir að koma á óvart.

Erla Dan leikur hina íslensku lágstéttarkerlingu sem er eins og aðrir á fjölunum þetta kvöld algerlega siðlaus og skemmtilega óþolandi. Einmitt hvernig leikaranum tekst að halda ærslum sínum sýninguna á enda gerir hana óborganlega og smám saman límast augun á þessari persónu sviðsins. Fyrir vikið reynir til muna minna á aðra leikara og eins og eðlilegt er í áhugaleikhúsi búa þeir að mismikilli reynslu. Í heildina verður samt til fjölskylda sem fellur vel saman og undir lok verksins kveðja áhorfendur samhentan hóp sem er einhvernveginn allt annar en í upphafi verks.

Þannig fer margt öðruvísi en áhorfandinn ætlar og líkt er raunar í lífi leikaranna í Þorlákshöfn. Þar stóð til að setja upp verk eftir einn leikaranna, Aðalstein Jóhannsson en vöntun á karlkyns leikurum setti þá áætlun úr skorðum. Því var gripið til þess að fá þetta verk Nínu Bjarkar Jónsdóttur til sýningar og lukkast hreint ágætlega.

Leikstjóri er Skeiðamaðurinn Friðjón Elli Hafliðason, öðru nafni Don Ellione, sem hefur lengi hefur starfað með Leikfélagi Selfoss og það hefur Þorlákshafnardaman Erla Dan líka gert. Þannig að segja má að með verkinu takist hið ágætasta samstarf milli nágrannabyggða.

Elín Gunnlaugsdóttir