Nú er sýningum á fjölskylduleikritinu Sjóræningjaprinsessunni hjá Leikfélagi Selfoss lokið. Sýningin fékk frábærar viðtökur og lof gagnrýnenda sem og leikhúsgesta og er með allra vinsælustu sýningum leikfélagsins. Alls sáu um 1800 manns sýninguna en sýndar voru 22 sýningar í heildina. Uppselt var á nánast allar sýningar svo oft á tíðum komust færri að en vildu. Hætt var fyrir fullu húsi en ekki er hægt að sýna fleiri sýningar vegna aðstæðna leikara.

Sýningin var með stærra sniði og tóku 16 leikarar og 4 tónlistarmenn þátt en alls komu milli 30-35 manns að sýningunni. Byrjað var að æfa í byrjun janúar svo æfingar og sýningar hafa því staðið yfir um 4 mánaða skeið. Margir ungir leikarar voru að stíga sín fyrstu skref í sýningunni og þóttu standa sig með mikilli prýði og vonast leikfélagið til að þar sé kominn góður hópur upprennandi framtíðarleikara.

Leikfélag Selfoss vill þakka öllum þeim sem komu á sýninguna kærlega fyrir komuna og frábærar viðtökur og vonumst við til að þið hafið skemmt ykkur vel en mest er þó ánægjan okkar að fá ykkur í heimsókn. Að lokum hvetjum við alla til að fylgjast vel með því spennandi starfi sem fram fer í leikhúsinu hverju sinni og bjóðum alla þá velkomna sem vilja starfa með okkur. Í því sambandi bendum við á heimasíðuna, leikfelagselfoss.is

{mos_fb_discuss:2}