Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Sólarferð eftir Guðmund Steinsson nk. föstudag, þann 15. febrúar í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Verkið er sýnt á Stóra sviðinu. Það er í sjálfu sér viðburður í hvert sinn sem íslenskt leikrit er sett upp að nýju, enda harla fátítt, og getur á sinn hátt skoðast sem vísbending um að höfundurinn eigi líf fyrir höndum sem klassískt leikskáld. Það er ný kynslóð leikhúslistamanna sem glímir nú við Sólarferð Guðmundar Steinssonar í Þjóðleikhúsinu, tæpum þremur áratugum eftir frumflutninginn.

Guðmundur Steinsson (1925-1996) er meðal okkar fremstu leikskálda. Leikritið Sólarferð, sem er eitt hans vinsælasta verk, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1976 við frábærar undirtektir. Sýningarinnar hefur víða verið beðið með eftirvæntingu enda er fyrri sýningin mörgum í fersku minni. Í verkinu dregur höfundur upp stórskemmtilega mynd af sólarlandaferðum Íslendinga á áttunda áratugnum, en lýsingar hans eiga að mörgu leyti ekki síður við í dag en þegar verkið var skrifað.
 
Við fylgjumst með hópi íslenskra ferðamanna sem eru samankomnir á spænskri sólarströnd. Þessa dugnaðarforka, afkomendur víkinganna, þyrstir að njóta lífsins lystisemda á þessum heita, framandi stað, þar sem allt flóir í ódýru áfengi og boð og bönn hins venjubundna lífs eru víðs fjarri. Leit ferðafélaganna að lífshamingju í þessu „himnaríki holdsins“ birtist okkur á bráðfyndinn hátt, en undir niðri kraumar sársauki sem erfitt er að leyna.
 
Leikstjóri sýningarinnar er Benedikt Erlingsson og höfundur leikmyndar er Ragnar Kjartansson. Þeir Benedikt og Ragnar vinna nú í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu sem leikstjóri og leikmyndarhöfundur, en þeir unnu meðal annars saman að einleiknum Mr. Skallagrímsson, sem Benedikt samdi og lék. Benedikt hlaut Grímuverðlaunin á liðnu vori fyrir hvort tveggja, leik og leikverk, auk þess sem hann fékk Grímuverðlaunin sem leikstjóri ársins fyrir Ófögru veröld. Ragnar Kjartansson hefur vakið mikla athygli fyrir myndlist sína á liðnum árum, og hefur verið valinn fulltrúi Íslands á næsta Feneyjatvíæringi.
 
Ragnar Kjartansson hannar búninga í félagi við Margréti Sigurðardóttur. Tónlistarráðgjafi sýningarinnar er Kristinn Árnason en um lýsingu sér Lárus Björnsson. Leikarar í sýningunni eru Edda Arnljótsdóttir, Esther Talía Casey, Halldóra Björnsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Juan Camilo Román Estrada, Kjartan Guðjónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.

{mos_fb_discuss:2}