Laugardaginn 10. september kl. 20:00 frumsýnir Borgarleikhúsið á Nýja sviðinu nýtt verk eftir eitt okkar fremsta leikskáld, Bjarna Jónsson. Leikstjóri er Marta Nordal. Gretar Reynisson gerir leikmynd og Stefanía Adolfsdóttir búninga.

Árið er 1982. Sjómannadagurinn er framundan. Það er barist í Palestínu og Bubbi Morthens túrar með Egó um landið til þess að kynna nýjustu plötu sveitarinnar: Breyttir tímar. Ungur drengur hefur verið sendur í fóstur til barnlausra hjónaleysa vestur á fjörðum. Konan tekur drengnum opnum örmum en tilfinningar mannsins eru flóknari og ekki líður á löngu þar til líf hjónanna umturnast. Veruleiki drengsins og hjónaleysanna virðist á einhvern undarlegan hátt hanga saman. Hver er þessi drengur og til hvers er hann kominn? Leikritið er leikur með tíma og rými, og gerir bjargarleysi og útskúfun að meginviðfangsefni sínu.

Bjarni Jónsson hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grímuverðlaunin, Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin auk þess sem hann hefur verið tilnefndur í tvígang til Norrænu leikskáldaverðlaunanna.

Aðstandendur: Höfundur: Bjarni Jónsson | Leikstjóri: Marta Nordal | Leikmynd: Gretar Reynisson | Búningar: Stefanía Adolfsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Tónlist: Guðmundur Vignir Karlsson/Kippi Kaninus | Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen | Aðstoðarleikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir |  Leikarar: Árni Arnarson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Þorsteinn Bachmann.