Laugardaginn 19. október frumsýnir Borgarleikhúsið í samstarfi við unga nýja listamenn leikverkið Saumur eftir Anthony Neilson. Á hverju ári útskrifar Listaháskólinn hátt á þriðja tug sviðslistafólks. Þetta fólk slær okkur blíðlega utan undir, því fylgja nýjar hugmyndir og önnur viðhorf. Ef þetta fólk væri ekki til þá myndi leikhúsið deyja út. Við þurfum að hlúa að því. Borgarleikhúsið hefur í gegnum árin kappkostað við að fá vaxtarsprota inn í húsið, leikara, leikstjóra, höfunda og annað sviðslistafólk. Einn af þessum vaxtarsprotum er Ríkharður Hjartar Magnússon sem leikstýrir verkinu.

Par í stormasömu sambandi neyðist til að ákveða hvort það sé tilbúið til þess að ala upp barn. Unga parið veltir fyrir sér hvort það eigi framtíð saman þrátt fyrir reiði og biturð yfir svikum fortíðarinnar. Ef hvorki er hægt að taka til baka það sem sagt hefur verið né það sem hefur verið gert, er þá hægt að hefja nýtt líf án þess að fyrirgefa?

Verkið var upphaflega útskriftarverkefni leikstjórans Ríkharðs Hjartar Magnússonar úr Fræði og framkvæmd við Listaháskóla islands og vakti mikla athygli en verður nú sýnt í nýrri og endurbættri útgáfu á Litla sviði Borgarleikhússins.

Höfundurinn Anthony Neilson (1967) er tvímælalaust eitt magnaðasta samtímaleikskáld Bretlands. Neilson hefur skrifað mikinn fjölda leikrita, gríðarlega ólík að gerð, innihaldi og framsetningu. Meðal verka eftir hann sem flutt hafa verið hérlendis má nefna Penetreitor, Ófagra veröld og Lík í óskilum.

Leikmynd og búninga hannar Móeiður Helgadóttir, lýsingu Garðar Borgþórsson, hljóðmynd Páll Ivan frá Eiðum og leikarar eru Hjörtur Jóhann Jónsson og Vala Kristín Eiríksdóttir.