Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson fös. 22. nóvember. Leikstjóri er Skúli Gautasonar. Saumastofan er eitt þekktasta verk höfundar og er reglulega sett upp hjá áhugaleikfélögunum. Verkið gerist árið 1975 og segir frá degi í lífi starfsfólks á saumastofu. Óvænt afmælisveisla meðan yfirmaðurinn bregður sér frá, verður til þess að losnar um málbeinið á starfsfólkinu. Ýmis leyndarmál koma upp úr kafinu og fólkið kynnist nýjum og oft óvæntum hliðum hvers annars.

Sýnt er í Félagsheimilinu á Hólmavík föstudag og laugardag kl. 20.00 og síðan fer leikfélagið í leikferð eins og þess er vani. Sýnt verður í Logalandi, Borgarfirði 30. nóvember kl: 20:00 og í Dalabúð, Búðardal þann 1. desember kl: 20:00. Lokasýning verður síðan í Félagsheimilinu á Hólmavík þ. 27. desember kl. 20:00.

Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg í sýningunni. Ljós og hljóð er í höndum Valdimars Kolka Eiríkssonar og leikstjóra. Úlfar Örn Hjartarson og leikhópurinn sáu um leikmynd. Ásdís Jónsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Kristín Lilja Sverrisdóttir sjá um förðun og hár. Búningar og leikmunir fengnir m.a. frá Gróustöðum og Grunnskólanum á Hólmavík auk leikhópsins. Agnes Jónsdóttir sér um leikskrá.