Leikfélag Selfoss boðar til samlestrar á gamanleik sem ætlunin er að setja upp í vetur.
Samlesturinn er opin öllum áhugasömum 18 ára og eldri, hvort sem áhuginn liggur á sviði leiklistar eða bak við tjöldin. Að vanda er tekið sérstaklega vel á móti nýju fólki sem hefur áhuga á að bætast í hina sístækkandi leikhúsfjölskyldu félagsins eða vill einfaldlega kynna sér starf leikfélagsins betur.
Samlesturinn er í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi miðvikudaginn 15. september kl. 20:00.
Leikstjóri verður Gunnar Björn Guðmundsson. Gunnar Björn hefur unnið jöfnum höndum í leikhúsi og kvikmyndum síðan 1996. Á þessum árum hefur hann leikstýrt fjórum kvikmyndum í fullri lengd, skrifað og leikstýrt fjórum áramótaskaupum, leikstýrt rúmlega þrjátíu leiksýningum og skrifað tíu leikrit. Gunnar Björn hefur haldið fjölda námskeiða í leiklist og kvikmyndagerð. Hann hefur verið stundakennari við Kvikmyndaskóla Íslands síðan 2014, kennir þar handritsgerð, leikstjórn og leiklist. Hann kennir núna leiklist á haustönn hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Gunnar Björn er einn af stofnendum Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði og kom að rekstri leikhússins fyrstu þrjú árin.