Í kvöld er síðasta sýning á leikritinu Útsýni eftir Júlíu Hannam í Möguleikhúsinu kl. 20. Um er að ræða nýtt íslenskt leikverk sem er fyrsta leikrit höfundar í fullri lengd, en Júlía hefur skrifað sjö einþáttunga sem settir hafa verið á svið hjá Hugleik. Þeirra á meðal er Í öruggum heimi, sem valin var besta sýningin á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu vorið 2006 af dómnefnd sem skipuð var Þorvaldi Þorsteinssyni og Þorsteini Bachmann.

 

Útsýni fjallar um samskipti tvennra hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.

Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.

Útsýni er klukkustundarlöng sýning og leikin án hlés. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig er boðinn hópafsláttur fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Miðapantanir eru á vef félagsins: www.hugleikur.is.