Freyvangsleikhúsið stendur fyrir opnum söngprufum fyrir söngleikinn Vínland í Freyvangi, laugardaginn 22.11. frá 13:00 – 16:00. Allir sem geta sungið og leikið eru velkomnir. Ingólfur Jóhannsson mun sitja við píanóið og spila undir lög að vali þátttakenda. Leikstjórinn, Ólafur Jens Sigurðsson, verður að sjálfsögðu á staðnum. Æfingartíminn verður í janúar og fram að frumsýningu um miðjan febrúar.

Vínland er fjölmennur söngleikur eftir Helga Þórsson sem gerist á tímum víkinga meðal norrænna manna á Grænlandi og svo færist sögusviðið yfir til Vínlands í Ameríku. Sagan fjallar um; ástir og örlög, kristni og heiðni, víkinga og indjána, gleði og sorgir en umfram allt mennskuna sem alltaf er söm við sig í gegnum allar aldir.

Tónlistina mætti kalla því markvissa nafni popp. Allt frá hugljúfum ballöðum fyrir krúttin, upp í valsa sem henta betur fyrir öldungana. Þar á milli örlítið pönk, nett heví metal og þjóðleg stef. Tónlistin er eftir Helga og hljóðfæraleikarana.

Yfirbragð verksins er dálítið villt. Það er að segja fantasían fær að ráða meiru en helber raunveruleiki fornaldar. Búningar verða vissulega með tilvitnun til gamalla tíma en áhersla verður lögð á glæsilegt og kynþokkafullt yfirbragð. Stuttir kjólar, bert hold, litir og glans sem allt þjónar heildarmyndinni sem er metnaðarfullt leikrit, fullt af gleði söng og dansi.

{mos_fb_discuss:2}