Leikfélag Kópavogs frumsýndi barnaleikritið Rúa og Stúa síðastliðinn vetur í Leikhúsinu í Kópavogi. Vegna Covid þurfti að hætta sýningum í miðju kafi en nú tekur leikfélagið upp þráðinn að nýju og fyrsta sýning verður 2. okt. næstkomandi.
Rúi og Stúi hafa smíðað vél sem getur allt. Hún getur búið til hluti, gert við hluti, gert afrit af hlutum og jafnvel gert nákvæma styttu af bæjarstjóranum. Eða hvað? Vélin bilar, bæjarstjórinn hverfur og dularfull kráka og enn dularfyllri stórþjófur koma öllu í uppnám. Hvað er til ráða annað en að baka sjálfur jólaköku? Fær Bergsteinn aðstoðarmaður sinn ástkæra bæjarstjóra aftur? Tekst Rúa og Stúa að gera við vélina? Hér má sjá sýningartíma og kaupa miða.
Leikritið er eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson en leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson. Átta leikarar taka þátt í Rúa og Stúa og þar af eru tveir nýir leikarar í þessari útgáfu sýningarinnar, þau Gísli Björn Heimisson og Birgitta Björk Bergsdóttir. Auk þess koma fjölmargir aðrir að uppsetningunni. Leikmynd er í höndum Norðanbáls, María Björt Ármannsdóttir sér um búninga, Vilborg Árný Valgaðrsdóttir um förðun, ljósameistari er Skúli Rúnar Hilmarsson og Hörður Sigurðarson sér um hljóð.
Leikfélag Kópavogs er opið öllum áhugamönnum um leiklist. Nánari upplýsingar er hægt að fá á vef félagsins kopleik.is.

LJÓSMYND: MM LJÓSMYNDIR