Laugardaginn 21. október sl. frumsýndi Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna barna og fjölskylduleikritið RÚI og STÚI eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðarsonar.

Þetta er öflug fjölskyldusýning sem höfðar til allra aldurshópa og heldur athygli allan tímann, sem er galdur barnasýninga!

Ég var mættur á frumsýninguna. Það er alltaf sérstök stemning á frumsýningum. Spenna og eftirvænting í loftinu og áhorfendahópurinn oftar en ekki tengdur sýningarhópnum meira en aðrir áhorfendahópar. Þetta þýddi að áhorfendahópurinn var verulega blandaður öllum aldurshópum.

Um leið og sýningin hófst var athyglin vakin. Sögusviðið er lítið samfélag með ótrúlega skemmtilegum einstaklingum sem hver sinnir sínu hlutverki í samfélaginu af krafti. 

Sýningin hefst á örlítlum íbúafundi þar sem sveitarstjórinn tilkynnir nýjustu  breytingar í samfélaginu. Þar með er sett í gang atburðarás sem vindur upp á sig og leiðir verkið áfram.

Leikgleðin og krafturinn sem er í þessum leikhóp umvefur salinn um leið og sýningin hefst. Þetta er öflugur kjarni sem þarna er og heldur uppi öflugu starfi áhugaleiklistarinnar sem er dýrmæt í öllum samfélögum.

Rúi og Stúi eru í höndum Runólfs og Sigurjóns. Þeir eru nánast allan tímann á sviðinu og krafturinn og einbeitingin í þeim félögum er ótrúleg. Það er alltaf auðvelt að ofleika slíka karaktera en þeir þræða þetta af stakri snilld og ljá þessum  persónum hlýleika og einlægni. Kraftmiklir og alltaf á ferð og flugi.

Bergsteinn er leikinn af Eyrúnu Ósk. Bergsteinn er ótrúlega undirgefinn persóna og er aðstoðarmaður sveitastjórans. Eyrúnu tókst að vekja  samúð með  Bergsteini og sýna óöryggi og kvíða og annað sem hrjáði þennan undirgefna embættismann. Viðkvæm og góð túlkun.

Íris Blandon leikur prófessorinn. Afar viðkvæm persóna, utan við sig, hefur sína sýn á samfélagið og breytir henni ekki. Íris fer mjög vel með þetta hlutverk og heldur sérstökum karktereinkennum prófessorsins allan tímann og skapar skemmtilega persónu.

Hannes Örn Blandon leikur sveitarstjórann sem ræður öllu og heldur öllum þráðum í hendi sér. Sveitrstjórinn er afar lifandi í höndum Hannesar sem nær að sýna yfirlæti hans og smá hroka í túlkun sinni.

Hlutverk krákunnar er í höndum Kristrúnar. Hún sýnir ótrúlega mýkt og aga í hreyfingum krákunnar. Hún svífur hljóðlaust um sviðið og krákan er nánast raunveruleg. Krákan er verulega virk í atburðarrásinni og birtist á ögurstundum í atburðarrásinni.

Bergur Tjörfi leikur þjófinn. Þetta er vandmeðfarið hlutverk sem Bergur skilar af sér af fagmennsku. Hann var öruggur í  túlkun sinni og gaman að sjá þennan unga leikara á sviðinu. 

María Dögg leikur Hallgerði, eiginkonu Bergsteins og nær vel að túlka stöðu hennar í þessu litla samfélagi. Skemmtileg persónusköpun.

Aðalheiður fer vel með hlutverk sjoppustelpunnar sem tætir í sig sælgætið af áfergju.

Frumsamin tónlist Stefáns Þorleifssonar kemur skemmtilega inn í sýninguna og litar hana.

Þar sem sýningin snýst um vél þeirra Rúa og Stúa er hún leikmyndin í sýningunni. Mjög skemmtilega gerð og samanstendur af mörgum skemmtilegum hólfum og tökkum og sveifum sem vekja athygli áhorfenda. Lýsing og hljóð í góðum höndum Unnar Malin.

Leikstjóranum Ólafi Jens tekst vel að virkja orku leikhópsins og setja á svið öfluga sýningu. Hann þekkir þennan hóp, hefur starfað með honum áður.

Ég skemmti mér vel á þessari öflugu sýningu. Ég ber mikla virðingu fyrir því fólki sem heldur uppi öflugu áhugaleiklistarstarfi í sínum sveitarfélögum og enn og aftur kærar þakkir og gangi ykkur vel.

Magnús J. Magnússon.