Höfundar: Skúli Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson
Leikstjórn: Gunnar Björn Guðmundsson
Leikmynd: Þorleifur Eggertsson, Frosti Friðriksson og Örn Alexandersson
Ljós: Skúli Rúnar Hilmarsson
Hljóð: Hörður Sigurðarson
Búningar: María Björt Ármannsdóttir og Marín Mist Magnúsdóttir 

Leikfélag Kópavogs hefur verið duglegt við að sinna börnum og unglingum í gegnum tíðina bæði með hefðbundnum barnasýningum og með því að stuðla að þátttöku unglinga í leiklistarstarfi og þannig er það enn. Þrátt fyrir heimsfaraldur og samkomubann, sem hefur sett mark sitt á alla menningarstarfsemi veraldarinnar undanfarna tvo vetur, er Kópavogsleikhúsið í startholunum. Það þýtur af stað strax og færi gefst og slakað er á höftunum. Nú eru Rúi og Stúi á fjölunum hjá félaginu. Þetta er fjörugt barnaleikrit eftir heimamennina Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson, sem lengi hafa verið burðarásar í leikhúsinu. Samkvæmt Google er þetta þriðja uppsetning á leikritinu, sem telst þar með orðið klassískt verk. Fyrst var það sýnt hjá LK árið 1996, aftur árið 2009 og síðan hjá Leikfélagi Sauðárkróks og Leikfélagi Selfoss 2011.

Leikritið fjallar um uppfinningamennina Rúa og Stúa, sem leiknir eru af Guðlaugu Björk Eiríksdóttur og Ingvari Erni Arngeirssyni. Þeir hafa fundið upp vél sem getur búið til allt sem nöfnum tjáir að nefna ef sleginn er inn rétti tölvukóðinn. Þarna er einnig á ferðinni metnaðarfullur bæjarstjóri sem vill láta gera af sér styttu (Ellen Dögg Sigurjónsdóttir), samviskusamur aðstoðarmaður hennar (Stefán Bjarnarson) og Hallgerður kona hans (María Björt Ármannsdóttir), einnig þjófótt kráka (Björg Brimrún Sigurðardóttir), sjóndapur prófessor (María Sigríður Halldórsdóttir) og lipur stórþjófur (Selma Rán Lima). Öll fara þau á kostum með sínar misstóru rullur. Það kemur fljótt í ljós að uppfinningamennirnin Rúi og Stúi ráða ekki vel við vélina miklu, sem á að geta búið til hvað sem er. Allt gengur þó stórslysalaust fyrir sig þar til bæjarstjórinn birtist til að láta móta af sér styttu. Þá fer allt í handaskol og ógnvægilegir hlutir gerast.

Hér verður ekki farið dýpra í söguþráðinn enda er hann kannski ekki meginatriði þessarar uppsetningar. Aðalmálið eru brellurnar og fjörið sem leikverkið býður upp á í höndum hugmyndaríks leikstjóra og aðstoðarfólks hans, og hér eru brellumeistarar á ferð. Börnin í salnum hlógu dátt að uppákomunum, t.d. þegar Rúi gerði morgunleikfimiæfingar á stuttu og mjóu fótunum sínum sem börnin sáu fljótt að voru hendur en ekki fætur. Þá hlógu þau aftur því það er svo gaman að sjá í gegn um brellur. Þeim fannst líka hlægilegt þegar höfuðið á bæjarstjóranum snérist nokkra hringi á banakringlunni en svo gripu þau andann á lofti þegar hann breyttist í beinagrind sem gufaði síðan upp. Gamanið var tekið að kárna, en svo leystust málin og allir tóku gleði sína á ný.

Tónlistin í leiknum, sem Ingvar Örn og Selma Rán eru skrifuð fyrir ásamt Erni Alexanderssyni, var skemmtileg. Þar voru falleg sönglög og vel flutt, meira að segja krákan, sem aldrei hefur þótt mikill söngfugl, hún söng undurvel í þessari sýningu. Stúi spilaði á gítar og Rúi á trommu og í lokalaginu var leikið á sex ukulele. Minnan mátti það ekki vera. Það var mikið klappað að leikslokum og eftir sýningu fengu börnin að tala við leikarana og skoða galdravélina og það var erfitt ná þeim heim.

Árni Hjartarson

————————

ATH! Þessi umfjöllun var skrifuð síðastliðið vor en þar sem samkomubann var sett á í kjölfar þeirrar sýningar sem ritað er um var ákveðið að bíða með birtingu þar til sýningar hæfust að nýju. Síðan hafa einnig orðið þær breytingar að Birgitta Björk Bergsdóttir hefur tekið við hlutverki Þjófsins og Gísli Björn Heimisson við hlutverki Krákunnar.