Fimmtudaginn 25.október verður leikritið Ræðismannsskrifstofan frumsýnt á Nýja svið Borgarleikhússins. Leikstjóri og höfundur Jo Strömgren og sýningin er unnin í samstarfi við Jo Strömgren Kompani. Sunnudaginn 28. október kl.  20 verður svo haldin dagskrá í tengslum við sýninguna þar sem hlutverk tungumálsins verður skoðað í víðu samhengi.


 
Leikritið gerist á rússneskri ræðismannsskrifstofu í ónefndu landi, þar reyna diplómatarnir að halda dampi. Föðurlandið er víðs fjarri, pósturinn kemur sjaldan og síminn hringir aldrei. Illgresið nær að skjóta rótum og menn hætta að bera höfuðið hátt. En í ástinni leynist vonarneisti. Eina vandamálið er að ástin krefst meiri diplómatíu en lítil ræðismannsskrifstofa hefur upp á að bjóða. Frumleg, fyndin og hrífandi sýning á bullmáli eftir leikhússnillinginn Jo Strömgren. Jo Strömgren hefur skapað mjög sérstætt sviðstungumál og hafa sýningar hans ferðast til yfir 40 landa, en sýningin Spítalinn leikin á bullíslensku, var sýnd á Hláturhátíð Borgarleikhússins 2007 við frábærar undirtektir áhorfenda.


 
SÝNINGIN ER STRANGLEGA BÖNNUÐ BÖRNUM 12 ÁRA OG YNGRI


 
Leíkarar:
Birgitta Birgirsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Hilmir Snær Jónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Þór Tuliníus.

Listrænir stjórnendur:
Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen
Ljós: Magnús Arnar Sigurðarson
Leikgervi: Svanhvít Valgeirsdóttir
Leikmynd og búningar: Jo Strömgren
Leikstjórn: Jo Strömgren

Talað tungum í Borgarleikhúsinu

Í tilefni sýningarinnar Ræðismannsskrifstofan eftir Jo Strömgren, sem er leikinn á bullmáli, efnir Borgarleikhúsið til dagskrár helgaðri tungumálinu. Á dagskránni verður hlutverki tungumálsins velt upp í víðu samhengi: Geta orð lýst hugsunum okkar og þeim fyrirbærum sem fyrir augu ber? Hefur tungumálið áhrif á hugsun? Eru orð nauðsynleg? Hvers virði er hreintunga? Tungumálið hefur jafnan skipað háan sess í leikhúsinu og leikhúsinu hefur af sumum verið gefið það hlutverk að vera musteri eða varðskip íslenskrar tungu. Leiklistarfólk tekur hlutverk þetta misalvarlega enda sviðtungumálið stærra og viðameira en sjálf íslenskan. Dagskráin er helguð tjáningu, hvort sem það er í gegnum hreina eða óhreina íslensku, bull eða  bara augnatillit. Gestir, sem er tungumálið hugleikið, ljá dagskránni tóna, tal og tilþrif. Þeir sem fram koma eru Megas, tónlistarmaður, en hann fékk íslenskuverðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2000,  Birgir Andrésson, myndlistarmaður, Oddný Eir Ævarsdóttir, heimspekingur og skáld og leikarar úr Ræðismannsskrifstofunni sýna atriði úr sýningunni og ræða um tungumál og leikhús. Dagskráin fer fram Sunnudaginn 28.október kl.20 á Litla sviðinu. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
 
 {mos_fb_discuss:2}