Leikfélagið Hugleikur sýnir leikritið Rokk í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 10. og föstudaginn 11. júní en sýningin var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins leikárið 2009-2010. Aðeins þessar tvær sýningar verða á Rokki í Þjóðleikhúsinu. Tónlist skipar vitaskuld stóran sess í sýningunni og er hún verk Eggerts Hilmarssonar, sem er einn af meðlimum Ljótu hálfvitanna. Það sama má segja um Þorgeir Tryggvason sem leikstýrir Rokki ásamt Huldu B. Hákonardóttur.

Rokk fjallar um tvær hljómsveitir sem deila með sér æfingahúsnæði. Eins og gefur að skilja koma upp ýmsir árekstrar og flækjur, enda böndin bæði metnaðargjörn og einstaklingarnir misflinkir í mannlegum samskiptum. Það setur líka óneitanlega strik í reikninginn að í annarri sveitinni eru eingöngu strákar, en hin er aðeins skipuð stelpum. Þar að auki koma við sögu eigandi húsnæðisins og all dularfullur fylgisveinn hennar. Í leikritinu eru nokkur lög, en verkið er þó ekki söngleikur í eiginlegum skilningi, þar sem flutningur laganna er eðlilegur hluti framvindunnar á æfingum hljómsveitanna.

Höfundar eru þau Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson, öll meðlimir félagsins, enda frumsmíðar á leikritum helsta einkenni Hugleiks.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:

„Rokk er kröftug sýning þar sem leikur og tónlist njóta sín sérlega vel í skemmtilegri blöndu af gamni og alvöru. … Persónur hljómsveitarmeðlimanna eru dregnar skýrum og skemmtilegum dráttum, ekki síður en dularfulli uppgjafarpopparinn og húsnæðiseigandinn, sem virðast fylgja í kaupunum. Tónlistarflutningurinn er góður og kraftmikill og í heildina ROKK leikfélagsins Hugleiks bráðskemmtileg, fjörug og hugmyndarík leiksýning.“

Leikarar í sýningunni eru: Baldur Ragnarsson, Elísabeth Lind Ingólfsdóttir, Flosi Þorgeirsson, Guðmundur Stefán Þorvaldsson, Guðrún Eysteinsdóttir, Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Helga Ragnarsdóttir, Hildur Halldórsdóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson, Jón Svavar Jósefsson og Ösp Kristjánsdóttir.

Miðasala er á midi.is

{mos_fb_discuss:2}