Í kvöld, föstudaginn 10. september, frumsýnir Leikfélag Akureyrar söngleikinn Rocky horror eftir Richard O’Brien í þýðingu Veturliða Guðnasonar. Sýning LA á Rocky Horror verður fyrsta sýningin sem sýnd verður í Hofi, nýju Menningarhúsi á Akureyri. Leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson og um tónlistarstjórn sá Andrea Gylfadóttir.

Richard O’Brien skrifaði The Rocky Horror Show árið 1973 og verkið var frumsýnt 19. júní sama ár í London. Sýningin gekk í langan tíma og hefur verið sett upp víða um heim allar götur síðan og alltaf notið mikillar hylli. Árið 1975 var svo gerð kvikmynd eftir söngleiknum; The Rocky Horror Picture Show.

Í Rocky Horror segir frá tveimur þægum og prúðum unglingum, þeim Brad og Janet sem verða fyrir því óláni að bíllinn þeirra bilar úti á þjóðvegi. Eina húsið í nágrenninu er kastali Dr. Frankenstein. Húsbóndi kastalans reynist vera Dr. Frank N Furter sem kemur frá plánetunni Transilvaníu. Dr. Frank N Furter er á kafi í vísindatilraun, er að búa til hinn fullkomna mann; Rocky. Í stað þess að fá hjálp við að gera við bílinn endar hið unga siðsama par innilokað í vægast sagt undarlegu og stórhættulegu ævintýri. Rocky Horror er söngleikur sem fólk um allan heim dáir og elskar.

Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Tónlistarstjóri Andrea Gylfadóttir
Frank N Furter: Magnús Jónsson
Riff Raff: Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Magenta: Bryndís Ásmundsdóttir
Kolumbía: Andrea Gylfadóttir
Brad: Atli Þór Albertsson
Janet: Jana María Guðmundsdóttir
Sögumaður og Dr. Scott: Guðmundur Ólafsson
Rocky: Hjalti Rúnar Jónsson
Eddie: Matthías Matthíasson
Hljómsveitina skipa:  Hallgrímur J. Ingvarsson, Halldór Gunnlaugur Hauksson, Stefán Daði Ingólfsson, Árni Heiðar Karlsson

{mos_fb_discuss:2}