Hedonismi er orð sem lýsir kannski vel nútímaþjóðfélagi þar sem aðaleftirsókn mannskepnunnar virðist vera að öðlast sem mesta gleði eða nautn. Þetta orð lýsir líka verki þeirra Kláusa “Riðið inn í sólarlagið”. Þar keppast allar persónurnar við að öðlast sem mesta nautn hvort sem það er á sviði kynlífs, áfengis eða söfnun efnislegra gæða. Þetta verk Önnu Reynolds sem er breskt leikskáld, er byggt upp af stuttum svo til ótengdum atriðum sem fjalla um líf nokkurra para sem eru að reyna höndla hamingjuna hvert á sinn máta. Þarna mátti til að mynda sjá parið sem var að reyna hressa upp á kynlífið, parið þar sem brennivínið var að leggja allt í rúst og parið sem var að reyna koma sér þaki yfir höfuðið með kynlífið að vopni. Umfjöllun um þetta viðfangsefni er auðvitað góð og gild en því miður tekst höfundi ekki marka sér skýra sýn eða útgangspunkt og niðurstaðan verður eiginlega eins og að horfa á áramótaskaupið. Fjöldi af stuttum senum, sumum drepfyndnum, sumum sorglegum og öðrum leiðinlegum. Og eins og áramótaskaupið þá skilur þetta verk ekki mikið eftir nema kannski eitt og eitt atriði.

Leikstjórn þeirra Odds Bjarna Þorkelssonar og Ólafs Jens Sigurðssonar. er fín og tekst þeim vel að stýra leikhópnum í skemmtilegri leikmynd Sirru Sigrúnar. Þeir hefðu þó mátt skerpa og undirbyggja betur dramatískari atriði verksins, eins og t.a.m. atriði drykkjusjúku konunnar. Leikhópunum tekst afar vel þrátt fyrir annmarka verksins að skapa fjölbreytilega og skemmtilega flóru persóna. Erlendur Eiríksson sýndi snilldartakta sem skyndikynnamaðurinn og maður grét af hlátri yfir karlhóru Guðjóns Þorsteins Pálmasonar. Hann og Margrét Sverrisdóttir voru líka frábær sem unglingarnir. Margrét stóð sig vel í hlutverki drykkjukonunnar en þau atriði hefði mátt styrkja leikstjórnarlega eins og ég nefndi fyrr. Alexía Björg Jóhannsdóttir var alveg óborganleg í hlutverki fullu framakonunnar og það var synd að hin hlutverkin sem hún var með í sýningunni buðu ekki upp á slíka takta. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir sem ég hef því miður séð alltof lítið af undanfarið sýndi að hún hefur engu gleymt og túlkaði bæði konuna sem er að reyna að vera frjálslynd og ríku gelluna alveg af snilld.

Búningar sem voru einnig eftir Sirru Sigrúnu pössuðu vel inn “Riðið” þema verksins, efnislitlir og auðveldir til fellingar. Lýsing sem var í höndum Benedikts Axelssonar var vönduð og tónlistin hjá Villa naglbít kraftmikil og skemmtileg.

Þrátt fyrir annmarka handrits skemmti ég mér vel á “Riðið inn í sólarlagið”. Allavega tók ég oft bakföll af hlátri og á stundum kom kökkur í hálsinn. Ef fólk er að leita sér að skemmtilegri kvöldstund eftir góðan málsverð á veitingahúsi þá er þetta leikrit fín upplyfting. Allavega fær það tvær og hálfa stjörnu frá mér.

Lárus Vilhjálmsson