Sunnudaginn 14. apríl frumsýnir leikfélagið Hugleikur leikdagskrána Rannsóknarstöðina sem unnin er að öllu leyti af meðlimum félagsins. Önnur sýning verður þriðjudaginn 16. apríl en aðeins verða sýndar þessar tvær sýningar. Sýningar hefjast kl. 20 og sýnt er í Hugleikhúsinu að Langholtsvegi 109-111.

Undanfarnar vikur hefur Hugleikur staðið fyrir námskeiðum fyrir leikara og leikstjóra undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar, annars vegar „Leikarinn sem skapandi listamaður“ og hins vegar „Leikstjórinn sem höfundur“.

Á leikaranámskeiðinu var gegnum ýmis konar æfingar og spunavinnu, leitast við að hjálpa leikaranum að skapa og forma sitt eigið efni, bæði sem einstaklingur og hluti af hóp. Á leikstjóranámskeiðinu voru kynntar „skapandi aðferðir“ (Devising methods), þ.e.a.s. ólíkar aðferðir við að móta og þróa efni með leikhóp og listrænum stjórnendum frá grunni (ekkert fyrirliggjandi handrit). Í lokin áttu þessi námskeið stefnumót og unnu í sameiningu nokkrar stuttar sýningar sem sýndar verða undir samheitinu Rannsóknarstöðin.

Miðaverð er 1.500 kr. og miðapantanir eru á vef Hugleiks.