Sjöunda ráðstefna Norrænu Drama Boreale samtakanna verður haldin í Reykjavík frá 6. til 10. ágúst 2012. Skipuleggjandi ráðstefnunnar er FLÍSS, Félag um leiklist í skólastarfi og er ráðstefnan skipulögð í samstarfi við Háskóla Íslands, menntavísindasvið.

Þema ráðstefnunnar er frumefnin fjögur: jörð, loft, eldur og vatn. Undirliggjandi þema á ráðstefnunni er húmor í kennslu en fyrirlesarar og kennarar eru beðnir að vinna efni sitt út frá þema ráðstefnunnar.

Til námskeiðahalds og fyrirlestra hafa verið fengnir fræðimenn frá öllum heimshornum.

Þátttakendum ráðstefnunnar gefst kostur á að taka þátt í fjölda mismunandi vinnusmiðja, hlusta á fyrirlestra og kynningar á nýlegum rannsóknum tengdum notkun á leiklist í skólastarfi og kynnast fjölbreyttum kennsluaðferðum tengdum leiklist.  Allir ættu vonandi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ráðstefnan mun vonandi veita norrænum fræðimönnum á sviði leiklistar í kennslu tækifæri til þess að kynna og ræða eigin rannsóknir. Að auki verður ráðstefnan tilvalinn vettvangur listafólks, kennara, kennaranema og áhugafólks um leiklist í skólastarfi á Norðurlöndum, til tengslamyndana, umræðna og virkra samskipta.

Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands, menntavísindasviði, Stakkahlíð, 105 Reykjavík

Það er von ráðstefnuhaldara að þátttakendur muni snúa heim með gnægð nýrra hugmynda til að nota við kennslu, ásamt því að hafa notið menningarlegra samskipta. Á meðan á ráðstefnunni stendur verður boðið upp á skoðunarferðir og allskyns uppákomur sem þátttakendur geta valið um að taka þátt í. Auk þess verða skemmtilegir listviðburðir á dagskrá frá flestum Norðurlandanna.  Komið, sjáið og njótið!

Nánari upplýsingar og skráning á http://www.dramaboreale.is/