Sýning Þjóðleikhússins á Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen, í leikstjórn og leikgerð Baltasars Kormáks, verður einn af hápunktum menningarhátíðarinnar Iceland on the Edge í Brussel nú í lok febrúar. Hátíðin verður sett þriðjudaginn 26. febrúar og stendur til 15. júní en sýningar á Pétri Gaut verða 29. febrúar og 1. mars.

Fyrrgreind menningarhátíð mun standa í um fjóra mánuði en hún er unnin í samstarfi við Bozar, stærstu menningar- og listamiðstöð Belgíu og Ancienne Belgique, eitt þekktasta tónlistarhús Brussel á sviði popp- og rokktónlistar. Hátíðin er mikil að umfangi og hefur undirbúningur hennar staðið í um tvö ár. Kvikmyndir Baltasars Kormáks, þ.á.m. myndirnar 101 Reykjavik, Hafið og Mýrin, verða ennfremur kynntar á hátíðinni.

Sýning Baltasars Kormáks á Pétri Gaut, sem frumsýnd var í Kassanum í Þjóðleikhúsinu vorið 2005, hlaut Grímuverðlaunin sem besta sýning ársins árið 2006. Sýningin hefur vakið mikla athygli erlendra gesta ekki síður en íslenskra, og hefur þegar ferðast víða út fyrir landsteinana, fyrst á Ibsen-hátíðina í Osló og svo tvívegis til Bretlandseyja þar sem verkið var fært upp í Barbican-leikhúsinu í Lundúnum. Hópnum hefur aukinheldur verið boðið að sýna verkið í Finnlandi og í Japan.
   
Með titilhlutverk í sýningunni fer Björn Hlynur Haraldsson en aðrir leikarar eru Edda Arnljótsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir, sem leikur hlutverk Sólveigar í stað Brynhildar Guðjónsdóttur. Í hópnum verða auk leikstjórans, Baltasars Kormáks, leikmyndahönnuðurinn Gretar Reynisson, Helga I. Stefánsdóttir búningahönnuður, Páll Ragnarsson ljósahönnuður og Sigurður Bjóla sem sér um tónlistina í sýningunni. Þess má geta að sömu listrænu aðstandendur standa að Ívanov, í leikgerð og leikstjórn Baltasars Kormáks, sem Þjóðleikhúsið hefur sýnt við miklar vinsældir á Stóra sviðinu frá jólum.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á slóðinni www.bozar.be

{mos_fb_discuss:2}