Miðvikudaginn 30. maí kl. 19.30 verður á Stóra sviði Þjóðleikhússins sýnd gestasýning frá Sviss, verðlaunauppsetning Þorleifs Arnarssonar með Luzerner Theater á hinu klassíska verki Ibsens, Pétri Gaut. Sýningin  er liður á Listahátíð í Reykjavík og verður aðeins sýnd þessi eina sýning.  Sýningin er leikin á þýsku með íslenskum texta.

Sýningin var frumsýnd í Luzern í Sviss haustið 2010 og fékk strax frábærar viðtökur. Uppsetningin var í lok leikársins valin besta þýskumælandi sýning ársins á Nachtkritik.de af gagnrýnendum og áhorfendum. Pétur Gautur er íslenskum áhorfendum að góðu kunnur. Þetta mikla verk um leitina að sjálfum sér í barningi lífsins, um lífslygina og þrjóskuna í blekkingunni á mikið erindi við Ísland um þessar mundir.

Þorleifur Örn lauk leiklistarnámi frá LHÍ og leikstjórnarnámi frá Ernst Busch leiklistarskólanum í Berlín árið 2005 og hefur síðan þá vakið athygli sem leikstjóri í hinum þýskumælandi heimi, á Íslandi og víðar. Leikhópurinn er svissneskur  en þrír íslenskir listamenn unnu að sýningunni með Þorleifi í Sviss, þau Vytautas Narbutas leikmyndahöfundur, Filippía I. Elísdóttir búningahöfundur og Símon Birgisson sem sá um vídeó og hljóð.

Gestasýningin Pétur Gautur er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Þjóðleikhússins.

Miðaverð er 3.500 kr.