Listahópurinn DFM, sem færði okkur Dansaðu fyrir mig síðasta vetur, sýnir tvær aukasýningar á nýja verkinu Petra. Sýningarnar fara fram 5. og 11. september. Margir Íslendingar kannast við Petru, en hún kom á fót glæsilegu steinasafni á Austfjörðum.

Þegar frú Petra Sveinsdóttir á Stöðvarfirði var spurð hvort álfasamfélagið væri ekki í algjöru uppnámi vegna steinasöfnunar hennar þar eystra, svaraði hún: „Ég held að þeir viti að mikið af steinunum hverfi niður í jörðina og komi ekki fyrir neins manns augu nema þeim sé bjargað.“

Á þessum nótum hefst leiksýningin „Petra“, byggð á ævi frú Petru Sveinsdóttur og ástríðufullri söfnunaráráttu hennar sem varð til þess að hún opnaði stærsta einkarekna steinasafn heims. Í sýningunni dregur Pétur Ármannsson upp faldar gersemar langömmu sinnar, leiðir okkur í gegnum ógrynni af sögum, minningum og myndum í eigu fjölskyldunnar og veltir því fyrir sér hvort hann hafi verið gott barna-barna-barn.

Tungumál: Enska og íslenska

Sýningar:
Föstudagur 5. september, kl. 20:00
Fimmtudagur 11. september, kl. 20:00

Lengd: Rúm klukkustund.

Sýningin er styrkt af Menningarráði Austurlands, Tjarnarbíó og Alcoa.

DFM company er samstarf danshöfundarins Brogan Davison og leikstjórans Péturs Ármannssonar. Saman vinna þau með fjölskyldu og vinum við að skapa nýtt og spennandi leikhús. Fyrsta verk þeirra, Dansaðu fyrir mig, er dúet á milli Brogan og Ármanns Einarssonar, föður Péturs. Verkið var tilnefnt í tveimur flokkum á Grímuverðlaununum 2014, Brogan sem „Danshöfundur ársins“ og Brogan og Pétur sem „Sproti ársins“. Sömuleiðis var verkið tilnefnt sem „Danssýning ársins“ og hneppti titilinn „Val lesenda“ í Menningarverðlaunum DV 2013.