Leikfélagið Peðið hefur tekið til sýninga Grandlendingasögu eftir Jón Benjamín Einarsson i leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Verkið fjallar í stuttu máli um hremmingar lítillar þjóðar og úrlausnir hennar til að koma sér út úr þeirri klípu sem þjóðin hefur komið sér í. Sagan gerist á ýmsum tímabilum í grandlensku sögunni og til eru kallaðir ýmsir litríkir karakterar til að finna lausnir á vandanum.
Það eru fá lönd í hinum vestræna heimi, sem hefur haldist jafn ömurlega á frelsi sínu og sjálfstæði, og Grandland. Þar er allt í rúst og engin veit hvers vegna. Marga grunar þó að smáskítlegur klíkuskapur ásamt samrekstri stjórnmála og atvinnulífs, eigi þar hlut að máli, ásamt plebbaskap og græðgi. Fólk sem heldur slíku fram er hættulegt sjálfstæði Grandlands. Því nú sem aldrei fyrr, er nauðsynlegt að fara Grandlensku leiðina við að byggja upp aftur svo sem fyrst megi njóta þess að hlusta á Elton John og Duran Duran að ekki sé minnst á Tinu Turner spila í partíunum sem Grandlendingar áttu til að slá upp af litlu tilefni.
Forfeður og mæður Grandlendinga eru sagðir vera að uppistöðu, höfðingjaættar og stórbóndafólk frá Norge, í bland við sérvalda Írska þræla. Inn í þessa söguskoðun vantar auðvitað stæðsta hópinn, nefnilega flóttafólk sem ekki rekst í umhverfi sem byggir á lögum og samvinnu. Við vitum nú að meirihluti Grandlendinga á ættir að rekja til gangstera og þrælahiskis sem skiptast á um að stjórna landinu milli þess sem þeir slefa hver upp í annan.
Til að draga fram þessa harmrænu kómedíu af þjóð sem hélt að lántaka væri sama og happafengur, höfum við skeleggan kabarettstjóra sem veit allt um Grandlendinga en ekkert um annað. Svo hlýðið á sögu þessa sjálfumglaða spjátrungs og hver veit, nema eitthvað sé hægt að læra af henni. En umfram allt. Skemmtiði ykkur sem mest yfir óförunum.
Sýningar eru alla sunnudaga fram að jólum bæði klukkan 3 og 6 og sýnt er á Grand Rokk.