Leikfélag Húsavíkur frumsýnir hið vinsæla barnaleikrit Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur laugardaginn 2. mars. Stefán Sturla Sigurjónsson heldur um leikstjórataumana að þessu sinni. Leikfélagið hóf leikárið á námskeiði fyrir börn frá 9-16 ára en leikritið Óvitar byggir einmitt á því að fullorðnir leiki börn og börn fullorðna. Mikill áhugi var fyrir námskeiðinu og voru yfir 40 börn sem skráðu sig á það. Alls eru 17 hlutverk fyrir börn í sýningunni og ákveðið var að bjóða 18 börnum að vera á sviði.
Æfingar hafa gengið vel og mikið fjör í gamla Samkomuhúsinu á Húsavík með allan þennan barnafjölda, það má því segja að framtíðin sé björt á Húsavík í leiklistarmálunum. Þeir fullorðnu sem taka þátt í sýningunni eru bæði leikarar sem oft hafa stigið á svið og aðrir sem eru að leika með félaginu í fyrsta sinn. Það er því skemmtileg blanda fólks á öllum aldri og með margs konar reynslu sem hittist á hverjum degi í Samkomuhúsinu.
Frumsýning verður laugardaginn 2. mars klukkan 16 og önnur sýning sunnudaginn 3. mars klukkan 16. Hægt er að panta miða á www.leikfelagid.is