Fjórir flóttamenn segja sína sögu á stóra sviði Borgarleikhússins ásamt þremur fyrirlesurum frá Rauða krossinum og sjálfboðaliðum. Halldóra Geirharðsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson halda utan um dagskránna. Dagskráin hefst kl. 13 laugardaginn 5. desember, ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Hugmyndin með þessu er fyrst og fremst að opna fyrir samtal og rými þar sem hægt er að tala saman. Yfirskriftin er „Opnum okkur“ og er þetta unnið í samstarfi við Rauða krossinn. Fyrst og fremst á þetta að vera einlæg samverustund.

Leikhús gegna mikilvægu hlutverki sem ein helsta og elsta menningarstofnun mannkyns. Það er rannsóknarstöð þar sem maðurinn og samfélag hans er rannsóknarefnið. Ekkert er leikhúsinu óviðkomandi. Það er musteri skemmtunar og gleði en um leið musteri mannúðar og mannskilnings. Hlutverk þess er meðal annars að varpa ljósi á málefni líðandi stundar, rýna í samtímann bæði með leiksýningum og einnig með öðrum hætti með því að halda á lofti vitsmunalegri umræðu um þjóðfélagið, stjórnmálin, menningu og listir. Það sem brennur á fólki um allan heim þessi misserin er hinn stórbrotni flóttamannastraumur. Borgarleikhúsið hefur því ákveðið að fjalla um fólk á flótta laugardaginn 5. desember kl. 13-15.