Þjóðleikhúsið opnar dyr sínar upp á gátt milli kl. 13 og 16, laugardaginn 6. september en þá gefst gestum og gangandi kostur á að kynna sér starfsemi leikhússins, yst sem innst.

Boðið verður upp á skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa, kynnisferðir um leikhúsgaldrana baksviðs, leiksmiðjur og þjóð(leikhús)legar veitingar, svo eitthvað sé nefnt. Þarna gefst einnig gott tækifæri til þess að kynnast því sem framundan er í leikhúsinu í vetur. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri mun taka á móti gestum í sínu fínast leikhúspússi, en hún er eins og flestir vita margreynd leikkona og verður án efa með dramatíska takta á hraðbergi.

Ræningjarnir úr Kardemommubænum ætla að grilla á tröppum Þjóðleikhússins, þeir hafa löngum þótt miður húslegir en hjálpin verður nærri – starfsfólk og leikarar hússins verða á ferð og flugi um alla bygginguna, uppáklædd í tilefni dagsins. Heyrst hefur af ísbirni í byggingunni og mun leit að honum halda áfram um helgina og vonandi verður enginn étinn.

Leikhúsunnendur sem vilja tryggja sér varanlegt sæti úr Þjóðleikhúsinu geta einnig tryggt sér stól í þessari ferð því örfá „sæti“ úr gamla salnum verða til sölu á opna húsinu. Stólarnir eru með hinu sígilda Þjóðleikhúsáklæði og í fínu standi, en ósamsettir.

Kynnisferðir baksviðs verða tímasettar og verður farið í litlum hópum um húsið, síðast þegar boðið var upp á slíkar heimsóknir komust færri að en vildu og því hvetjum við áhugasama til að kynna sér dagskrána vel. Skoppa og Skrítla ætla líka að kíkja í heimsókn, sem og Einar Áskell. Maddamamma og Putti litli úr ævintýraskógi Skilaboðaskjóðunnar verða á svæðinu og boðið verður upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir börnin.

Nánar má lesa um dagskrá opna hússins á heimasíðunni www.leikhusid.is

{mos_fb_discuss:3}