Miðvikudaginn 27. janúar kl. 10.00 verður opinn samlestur á nýju verki Tyrfings Tyrfingssonar, Auglýsing ársins. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni.  Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.

Auglýsingastofa er á barmi gjaldþrots þegar loksins birtist kúnni með fulla vasa fjár. Eigandinn og hans teymi taka til óspilltra málanna og leggja allt í sölurnar til að mæta óskum þessa leyndardómsfulla viðskiptavinar. Þau taka sköpunarstarfið föstum tökum en skyndilega harðnar á dalnum – gömul og dramatísk stjarna snýr aftur og listakonan María fer að sjá líf nöfnu sinnar Poppins í hillingum. Stórkostlegt lið leikara í flugbeittu leikriti sem sviptir hulunni af markaðshyggju Íslendinga.

Áætluð frumsýning er 8. apríl á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Tyrfingur Tyrfingsson (f. 1986) er með áhugaverðustu leikskáldum landsins af yngstu kynslóð höfunda. Auglýsing ársins er annað verk hans í fullri lengd en áður hafa verið sýnd í Borgarleikhúsinu Skúrinn á sléttunni og Bláskjár sem hlutu á sínum tíma mikið lof.

Aðstandendur
Höfundur: Tyrfingur Tyrfingsson | Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson | Leikmynd & búningar: Eva Signý Berger | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson| Tónlist & hljóð: Garðar Borgþórsson |  Leikarar: Björn Thors, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Theódór Júlíusson.