Starfsfólk Borgarleikhússins lýkur upp dyrunum á laugardag kl. 13 og býður í vöfflukaffi með fjörlegri dagskrá. Það verður líf á öllum sviðum og um allt leikhús. Gestir á öllum aldri geta upplifað töfra leikhússins, gægst baksviðs, farið í skoðunarferðir og  bragðað á ljúffengum vöfflum sem leikhússtjórinn Magnús Geir, mun reiða fram af myndarskap ásamt öðru starfsfólki. Leikarar, leikstjórar, hönnuðir og tæknifólk  verða við störf á öllum sviðum hússins, ýmist við æfingar eða sýningar eða til þess að svara spurningum sem brenna á forvitnum leikhúsgestum.

Hið árlega opna hús Borgarleikhússins er haldið laugardaginn 31. ágúst. Þá geta gestir og gangandi skoðað leikhúsið og séð brot af þeim fjölmörgu sýningum sem frumsýndar verða á leikárinu. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þegar leikhúsið dregur tjöldin frá nýju og glæsilegu leikári.

Meðal þess sem í boði verður er:
• Mary Poppins og dansarar Íslenska dansflokksins sýna atriði á Stóra sviðinu.
• Skoppa og Skrítla skemmta í forsal.
• Brot úr verkinu Rautt, Lalli töframaður og Sönglist verða á litla sviðinu.
• Opnar æfingar á Jeppi á Fjalli, Húsi Bernhörðu Alba og Óskasteinum.
• Skoðunarferðir verða reglulega yfir daginn og verður fólk leitt um króka og kima þessa stærsta leikhúss landsins. Þar verður baksvið skoðað, búningageymslur, æfingasalir, förðunardeild, smíðaverkstæði og margt fleira.
• Leikhússtjórinn, Magnús Geir ásamt öðru starfsfólki, mun bjóða upp á kaffi og ilmandi nýbakaðar vöfflur. Um 500 lítra af vöffludeigi þart til.
• Ratleikur vítt og breitt um forsal með veglegum verðlaunum.
• Ljósmyndahorn þar sem Skoppa og Skrítla, Mary Poppins, Bert og sótarar stilla sér upp fyrir myndartökur með yngstu gestunum.
• Búninga – og hárkollumátun á Nýja sviði.
• Tæknifikt á svölunum.
• Blöðrur og happadrætti, dregið á klukkutíma fresti. Áskriftar – og gjafakort í Borgarleikhúsið í verðlaun. Aðalverðlaunin er flugmiði fyrir tvo til London með WOW air.

Í forsal leikhússins verður fjölbreytt tónlistardagskrá. Veislustjóri er Halldór Gylfason. Karl Olgeirsson og félagar spila og Jóhann Sigurðarson, Hallgrímur Ólafsson, Vox feminae o.fl. syngja leikhúsperlur – auk þess sem ýmsar óvæntar uppákomur verða því leikhúsið getur sprottið fram alls staðar!

Opið hús er orðinn fastur liður í menningarlífi Reykvíkinga. Siðurinn hófst þegar Leikfélag Reykjavíkur flutti í Borgarleikhúsið fyrir 20 árum síðan og hefur verið haldið í heiðri nær óslitið síðan. Borgarbúar kunna að meta daginn og flykkjast í leikhúsið til að kynna sér verkefni vetrarins. Aðsókn að opnu húsi hefur alltaf verið góð en þó aldrei meiri en fyrir ári þegar gestir voru yfir 10.000 talsins.

Allir velkomnir á opið hús í Borgarleikhúsinu á laugardaginn á milli kl. 13 og 16. og að sjálfsögðu er ókeypis aðgangur.