Starfsfólk Borgarleikhússins lýkur upp dyrunum klukkan 13 laugardaginn 1. september og býður í vöfflukaffi með fjörlegri dagskrá. Það verður líf á öllum sviðum og um allt leikhús. Gestir á öllum aldri geta upplifað töfra leikhússins, gægst baksviðs, farið í skoðunarferðir og  bragðað á ljúffengum vöfflum sem leikhússtjórinn Magnús Geir, mun reiða fram af myndarskap ásamt öðru starfsfólki. Leikarar, leikstjórar, hönnuðir og tæknifólk verða við störf á öllum sviðum hússins; ýmist við æfingar eða sýningar eða til þess að svara spurningum sem brenna á forvitnum leikhúsgestum.

Gestir og gangandi geta skoðað leikhúsið og séð brot af þeim fjölmörgu sýningum sem frumsýndar verða á leikárinu. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þegar leikhúsið dregur tjöldin frá nýju og glæsilegu leikári.

Meðal þess sem í boði verður er:
• Sjóræningjar úr Gulleyjunni og dansarar Íslenska dansflokksins sýna atriði á Stóra sviðinu
• Skoppa og Skrítla skemmta í forsal
• Gói og Þröstur sýna valda kafla úr ævintýrunum á litla sviðinu
• Opin æfing á Á sama tíma að ári  á æfingasal
• Skoðunarferðir verða reglulega yfir daginn og verður fólk leitt um króka og kima þessa stærsta leikhúss landsins. Þar verður baksvið skoðað, búningageymslur, æfingasalir, förðunardeild, smíðaverkstæði og margt fleira. Hvernig snýst sviðið og hvað gerist undir sviðinu, eða í herbergi leikaranna baksviðs?
• Skyggnst inn á æfingu á Svari við bréfi Helgu á Nýja sviðinu
• Sönglist flytur tónlistaratriði á Litla sviði
• Leikhússtjórinn, Magnús Geir ásamt öðru starfsfólki, mun bjóða upp á ilmandi nýbakaðar vöfflur og kaffi.
• Gulleyjuratleikur vítt og breitt um forsal með veglegum verðlaunum
• Ljósmyndahorn þar sem Skoppa og Skrítla, Gói og Þröstur og sjóræningjar úr Gulleyjunni stilla sér upp fyrir myndartökur með yngstu gestunum
• Búninga – og hárkollumátun og tæknifikt á svölunum
• Blöðrur og happadrætti, dregið á klukkutíma fresti. Áskriftar – og gjafakort í Borgarleikhúsið í verðlaun

Í forsal leikhússins verður fjölbreytt tónlistardagskrá, Sigtryggur Baldursson, Óttar Sæmundsen og Leifur Jónsson spila og Jóhanna Vigdís, Jóhann Sigurðarson o.fl. syngja leikhúsperlur – auk þess sem ýmsar óvæntar uppákomur verða því leikhúsið getur sprottið fram alls staðar!

Opið hús er orðinn fastur liður í menningarlífi Reykvíkinga. Siðurinn hófst þegar Leikfélag Reykjavíkur flutti í Borgarleikhúsið fyrir 20 árum síðan og hefur verið haldið í heiðri nær óslitið síðan. Borgarbúar kunna að meta daginn og flykkjast í leikhúsið til að kynna sér verkefni vetrarins. Aðsókn að opnu húsi hefur alltaf verið góð en þó aldrei meiri en fyrir ári þegar gestir voru yfir 10.000 talsins.

Allir velkomnir á opið hús í Borgarleikhúsinu, laugardaginn 1. septemebr á milli kl. 13 og 16. – og að sjálfsögðu er ókeypis aðgangur.