Hugleikur
Feigð eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar

Ármann Guðmundsson, höfundur og leikstjóri Feigðar sem Hugleikur frumsýndi að kvöldi síðasta vetrardags í Kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekkunni, lætur þess getið í leikskrá að verkið sé afturhvarf til þess tíma þegar hann steig sín fyrstu skref með Hugleik. Síðan eru 25 ár og þetta ástríðuleikfélag sýnir engin merki um feigð. Að minnsta kosti ekki ef mið er tekið af feigðarfári og fjöri leikara og söngvara í kartöflugeymslunni í þessum óði þeirra til sjálfra sín og leikfélagsins Hugleiks, sem ekki verður annað séð en að þeir unni allir hugástum.
Ég sá ekki þá baðstofuleiki frá tilhugalífsárum Ármanns og Hugleiks sem hann nefnir í leikskránni, en af þeim fór nokkurt orðspor. Ég hef raunar ekki heldur séð margar sýningar hugleikara síðan ástir tókust með höfundi Feigðar og leiklistinni og hann segir frá í sama pistli og áður var vitnað til. En þrátt fyrir þennan skort á hugleiksreynslu þykist ég hafa séð og heyrt á miðvikudagskvöldið að lofsöngurinn til baðstofuleikja Hugleiks var hreinn og tær í sínum undirfurðulegu stílbrögðum.
Í Feigð Ármanns Guðmundssonar ægir nefnilega öllu saman og saklaus áhorfandi gæti auðveldlega átt erfitt með að átta sig á því hvað þarna er eiginlega að gerast. Ekki af því að sagan sé flókin, sem hún er hreint ekki, heldur vegna þess hvernig alls konar ólíkum stílbrögðum er beitt og blandað saman. Feigð er harmleikur í farsa- og Jóns Thoroddsens-stíl. Raunar er oft litið svo á að farsinn og harmleikurinn séu tvær hliðar á sömu myntinni en í leikriti Ármanns blandast þessi tvö form saman á geggjaðan hátt. Feigð er harmleikur af því að sagan er svo harmræn en í verkið vaknar það megineinkenni farsans að óvænt atvik drífi fléttuna áfram. En Feigð er farsi af því að leikstíllinn er hugleikskur farsastíll sem leikkonan í hlutverki Sesselju, fyrrum niðursetnings og nú eiginkonu Greips bónda, er ein óspjölluð af. Meira að segja stúlkan í hlutverki Arnleifar, nýja niðursetningsins á bænum Skollakoti, var ekki laus við farsakennd tilþrif í lokaatriði sýningarinnar. Mér fannst það svolítið miður því að með því óhreinkuðust bæði Arnleif og sýningin. Arnleif þessi hafði sett á sýninguna alveg fram að þessu atriði þvílíkan leikhússvip að manni gat allt eins dottið í hug maður væri í New York eða París en ekki inni í gömlum bragga í Ártúnsholtinu.
En að flestu öðru leyti var sýningin á Feigð að mínu mati vel heppnuð. Hinn bernski óður til bernskunnar lukkast vel og hljómar tært. Allt þetta rugl með stíl og leikur með markaleysi er býsna skemmtilegt en ég efast um að nokkrir nema hugleikarar megi leyfa sér svona nokkuð. Enda er dálítill vandi að láta svona ýkt stílbrögð lukkast án þess að þau verði bara afkáraleg. Það ráða hugleikarar hins vegar við án þess að blása úr nös og oft var unun að horfa á þá á sviðinu í sínum skrítnu stellingum farandi með sinn stundum vandræðalega texta.
Texti leikritsins er semsé vandræðalega knappur. Í honum er nánast ekki að finna neina karaktersköpun sem gagn sé að fyrir leikarana. Þetta eru eintómar klisjur fram og til baka, bæði persónur og orðfærið, og enginn nema Hugleikur gæti borið á borð svona verk án þess að fá aðhlátur einan að launum. Þarna eru minni úr rómantískum skáldsögum nítjándu aldar, vísun í síðustu aftökur á Íslandi og sjeikspísk tilþrif. Óskar Wilde er ekki langt undan og þegar leið nær leikslokum mátti greina andblæ frá Gunnari á Hlíðarenda í viðbrögðum meginpersónu Feigðar. Einnig hann var búinn að drepa of marga til þess að hann sæi sér fært að halda til skips og sigla frá landi. Arnleif litla niðursetningur minnti á drenginn í Beðið eftir Godot og Sjöundármálið í Svartfugli Gunnars Gunnarssonar var samfellt hliðarstef í þessu leikriti. Er þó hvergi nærri allt talið af því sem höfundur og leikstjóri grípa til í ástarsöng sínum til Hugleiks. Það sama á við um tónlistina. Þar ægði öllu saman heyrðist mér, allt frá tilbrigðum við íslensk þjóðlög til brechtískrar leikhústónlistar og gott ef ekki mátti líka greina þarna einhvers konar húsvíska útgáfa af Tom Waits. Fyrir utan alla hina tónskrattana. Jahérna. Er þetta þá ekki alveg ómögulegt tónlistarívaf? Ónei. Þessi aðferð er alveg í samræmi við allt annað í sýningunni og útkoman bara býsna skemmtileg. Mér fannst þó að tónlistaratriðin drægjust stundum um of á langinn og ekki væri alltaf unnið alveg markvisst að því að þau vefðust inn í sýninguna sem eðlilegur þáttur en væru ekki bara til uppbrots og hvíldar fyrir áhorfendur.
Búningar og leikmynd voru nokkru heildstæðari en aðrir þættir sýningarinnar. Leikmyndin hefði að mörgu leyti getað verið úr vígslusýningu Þjóðleikhússins á Nýársnóttinni árið 1950 eða fengin að láni frá Leikfélagi Reykjavíkur úr sýningum þess á Manni og konu á sjöunda áratug síðustu aldar. En inn í hana fléttuðust svo samtímasviðslausnir með gripum sem gátu gegnt ýmsum hlutverkum, vísað á breytta staðsetningu leikatriða, orðið að líkkistum og fleiru. Og ekki má gleyma aflandskrónueyjunum í gervi heydríla sem líkt og flutu á sviðsgólfinu. Búningarnir voru samtímalegir leikhúsbúningar því að hvergi var gengið alla leið í peysufataklæðnaði né prjónabrókastíl. Bara vísað til þessara fyrirbæra í tískusögu þjóðarinnar á einkar smekklegan og vandaðan hátt.
Sýningin á Feigð er vandvirknislega unnin og trú sjálfri sér frá upphafi til enda. Einkar ánægjuleg upplifun að fá notið hennar þó hún sé vitaskuld ekki gallalaus. Leikarar og tónlistarmenn skila sínu vel, kannski eitthvað misvel, en það er heildstæður svipur yfir þessari sýningu. Stundum jafnvel listrænni áferð en búast mætti við af sýningu áhugafélags. En hér ber að hafa í huga að Hugleikur er ekki áhugafélag heldur félag ástríðufólks. Hin margtuggna spurning um hvort vel fari á því að höfundur setji upp sitt eigið verk gægist að vísu á gluggann þegar horft er á Feigð. En kannski er sú spurning bara marklaus klisja.

Trausti Ólafsson