Borgarleikhúsið kynnir leikárið 2015-2016 með glæsilegu blaði sem kom út í dag. Dagskrá vetrarins eru mjög fjölbreytt og er öllu tjaldað til. Aðsókn í Borgarleikhúsið hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er meiri en nokkru sinni fyrr í sögu íslensks leikhúss. Fjöldi kortagesta hefur margfaldast og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Úr ávarpi Kristínar Eysteinsdóttur leikhússtjóra:
Á stóra sviðinu í vetur bjóðum við upp á stórsýningar þar sem öllu verður tjaldað til. Leikstýran Yana Ross, sem hefur sópað að sér verðlaunum víðsvegar um Evrópu undanfarin ár, sviðsetur krassandi útgáfu af meistaraverkinu Mávinum og Þorleifur Örn Arnarson færir okkur ástsælustu sögu þjóðarinnar, Njálu, í algerlega nýjum búningi. Söngleikjaunnenndur verða ekki sviknir í ár því að Abba söngleikurinn Mamma mia mun án efa sprengja þakið af húsinu í vor í meðförum margra okkar fremstu sviðslistamanna.
Borgarleikhúsið leggur mikla áherslu á frumsköpun og höfundastarf. Við erum því afar stolt af því að á litla sviðinu frumsýnum við fimm ný íslensk verk. Þar hefja trúðarnir okkar leikinn með trúðaóperunni Sókrates, tónlistarmaðurinn KK slær á ljúfsára strengi í sýningunni Vegbúar og Hrafnhildur Hagalín og Björn Thors taka saman höndum og færa okkur heimildaverk um snjóflóðið á Flateyri en í ár eru 20 ár liðin frá því að flóðið fell. Verkin Illska og Made in children spyrja áleitinna spurninga um samtíma okkar og samfélag.
Á nýja sviðinu hefjum viðleikinn með verðlaunaverkinu Ati, ögrandi samtímaverki um vægðarlausa samkeppni. Við færum ykkur eitraðasta eftirpartý leiklistarsögunnar með meistaraverkinu Hver er hræddur við Virginíu Wolf? og ljúkum svo leikárinu með ærslafullla og hárbeitta gleðileiknum Auglýsing ársins eftir eitt áhugaverðasta leikskáld okkar af yngri kynslóð, Tyrfing Tyrfingsson.
Vegna mikilla vinsælda snúa nokkrar sýningar frá fyrra leikári aftur: Billy Elliot sem heillaði áhorfendur upp úr skónum, ólíkindatólið sívinsæla Lína Langsokkur sigurvegari Grímunnar, Dúkkuheimili, verður sýnt í takamarkaðan tíma og Kenneth Máni og Hystory stela senunni á ný.