Hin nýstofnaða Ópera Vestfjarða frumsýnir sitt fyrsta verkefni núna á fimmtudag. Það er óperettueinleikurinn „Eitthvað sem lokkar og seiðir…“. Verkið fjallar um söng- og leikkonuna Sigrúnu Magnúsdóttur, sem nefnd hefur verið „óperettudrottning Íslands”.

Það er Elfar Logi Hannesson sem samdi verkið og er jafnframt leikstjóri sýningarinnar. Óperusöngkonan Sigrún Pálmadóttir bregður sér í ýmis gervi óperettudrottningarinnar og flytur mörg þeirra laga sem gerðu hana fræga á sínum tíma, m.a. úr óperettunum Nitouche, Brosandi land, Leðurblökunni o.fl. Píanóleikarinn Beáta Joó sér um meðleikinn á píanóið.

Óperettueinleikurinn verður frumsýndur fimmtudaginn 17. september kl.20.00 í Hömrum á Ísafirði. Önnur sýning verður laugardaginn 19. september kl.18.00. Miðaverð er kr. 3.000, en 50% afsláttur fyrir börn og lífeyrisþega.

Sigrún Magnúsdóttir var reyndar ekki fyrsti Ísfirðingurinn sem gerði óperu- eða óperettusöng að ævistarfi sínu. Fyrsti lærði óperusöngvari Íslands sem vitað er um kom líka frá Ísafirði. Hann hét Ari Maurus Jónsson (Ari Johnsen), sonur faktorshjónanna í Neðstakaupstað, en gerðist óperusöngvari úti í hinum stóra heimi. Ari starfaði einkum í Þýskalandi, m.a. í Berlín, Leipzig og Hamborg, en kom einnig fram í London. Ari hætti að syngja árið 1909, þá um fimmtugt, og stundaði eftir það söngkennslu í Hamborg og síðan í Kaupmannahöfn,þar sem hann lést árið 1927.

Söngáhugi hefur alla tíð verið mikill hér fyrir vestan, fjölbreytt kórastarf og margir stunda söngnám. Hér hefur verið talsvert um uppfærslur á söngleikjum og er mörgum enn í fersku minni uppfærslur Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á söngleikjunum Oliver! 1999 og Söngvaseið 2003. Leikfélag Menntaskólans hefur einnig sett upp nokkra söngleiki. Þá má ekki gleyma sögufrægum uppfærslum á óperettunum Bláu kápunni sem Sunnukórinn stóð fyrir árið 1948 og Meyjaskemmunni á 40 ára afmæli karlakórs Ísafjarðar og Leikfélags Ísafjarðar, en Sigrún Magnúsdóttir leikstýrði einmitt þeim uppfærslum auk þess sem hún var í aðalhlutverki í báðum sýningunum.

Hins vegar hefur að því sem næst verður komist einungis einu sinni verið hér óperusýning, en það var Brúðkaup Fígarós eftir Mozart í flutningi Íslensku óperunnar árið 1989. Óperan var sýnd í félagsheimilinu í Hnífsdal

Ópera Vestfjarða er nýr félagsskapur sem hefur það að markmiði að vinna að útbreiðslu óperu- og óperettutónlistar og hugsanlegum flutningi slíkra verka á Vestfjörðum. Félagið hyggst ná markmiðum sínum með óperukynningum af ýmsu tagi, dagskrám um og með óperutónlist og vonandi óperuuppfærslu fyrr en síðar.

Verkefnið nýtur m.a. stuðnings frá Menningarráði Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, Tónlistarskóla Ísafjarðar o.fl. Stjórn félagsins skipa þau Sigríður Ragnarsdóttir, Elfar Logi Hannesson og Ingunn Ósk Sturludóttir. Almenningi býðst að gerast félagar í óperufélaginu gegn vægu árgjaldi og vonast stjórnin til að félögum fjölgi hratt og vel á næstunni, einkum í kjölfar sýningarinnar.

Það er ákaflega mikilvægt fyrir Óperu Vestfjarða að fyrstu skrefin takist vel og því ómetanlegt fyrir félagið ef almenningur tekur vel þessu metnaðarfulla verkefni og fjölmennir á þessar sýningar sem framundan eru.