Söngleikurinn Ástin er diskó, lífið er pönk verður frumsýndur í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 1. maí nk. Frá Stóra sviðinu berast nú taktfastir diskótónar í bland við argasta pönk því viðfangsefni Hallgríms Helgassonar, höfundar verksins, er litríkur átakatími í íslensku menningarlífi. Í verkinu hljóma gamlar (og nýjar) diskó- og pönkperlur í frábærum flutningi okkar bestu listamanna. Leikstjóri er Gunnar Helgason en tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.
 
Tímabilið í kringum 1980 var um margt merkilegt í tónlistarsögu okkar, diskóæðið var í algleymingi og hérlend dægurlagatónlist litaðist af henni á sama tíma og pönkið gerði strandhögg og hleypti öllu í bál og brand. Fólk var dregið í dilka eftir tónlistarsmekk og fatastíl en liðin voru tvö: Pönk og diskó. Undir yfirborðinu mátti þó greina þjóðfélagsátök þar sem tekist var á um þýðingarmeiri hluti en öryggisnælur og axlapúða.
 
En eins og ætíð spyr ást hvorki um stíl né stöðu og þegar diskódrottningin Rósa, nýkrýnd Ungfrú Hollywood, hittir fyrir pönknaglann Nonna niðri á Hallærisplani verður eitthvað undan að láta. Nonni og Rósa virðast við fyrstu sýn eiga fátt sameiginlegt, en eitthvert einkennilegt aðdráttarafl dregur þau hvort að öðru. Munu heildsaladóttirin fótafima og hinn hugumstóri forsöngvari Neysluboltanna ná að sætta sín ólíku sjónarmið? 
 
Hér mætast diskókúlur og hanakambar, vinsældapopp og kjarngóð pönktónlist í þrususkemmtilegri sýningu fyrir alla fjölskylduna. Meðal slagara í söngleiknum má nefna kaldastríðsóðinn „Hirosima“ eftir Bubba Morthens, diskósmellinn „Dagar, nætur“ eftir Jóhann G. Jóhannsson og hið sívinsæla „Fjólublátt ljós við barinn“ eftir Gunnar Þórðarson og Þorstein Eggertsson. Eyrnaormar Þorvaldar Bjarna gefa þessum sígildu lögum þó ekkert eftir en hann hefur samið sjö ný lög fyrir sýninguna. Auk þess eru tvö splúnkuný pönklög í sýningunni en þau báru sigur úr býtum í pönklagasamkeppni Þjóðleikhússins og Rásar 2 í vetur, höfundar þeirra eru hljómsveitirnar Jól og Vafasöm síðmótun.
 
Leikarar og dansarar í sýningunni eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þórir Sæmundsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Selma Björnsdóttir, Sigurður Hrannar Hjaltason, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Ívar Helgason, Kjartan Guðjónsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Esther Talia Casey, Axel Árnason, Eva Dögg Ingimarsdóttir, Ásgrímur Geir Logason, Heiða Björk Ingimarsdóttir, Þorleifur Einarsson og María Leifsdóttir.

Danshöfundar eru Birna og Guðfinna Björnsdætur, leikmynd hannar Frosti Friðriksson en hönnuður búninga er Þórunn María Jónsdóttir. Lárus Björnsson og Ólafur P. Georgsson annast lýsingu. Halldór Snær Bjarnason og Ísleifur Birgisson sjá um hljóðstjórn.
 
Rétt er að geta þess að málfar í sýningunni er „pönkað“.

{mos_fb_discuss:2}