Útsendari Leiklistarvefjarins brá sér að japanska sýningu í Þjóðleikhúsinu:

Það var forvitni um undarlegar stefnur og hefðir í leikhúsi sem rak mig til að fara að sjá gestasýningu frá Natori-leikhúsinu í Japan í Þjóðleikhúsinu síðasta laugardagskvöld. Mér þótti spennandi að sjá Noh-formið, og að efniviðurinn væri Brúðuheimili eftir Ibsen þótti mér hálfgert aukaatriði. Enda finnst mér það alveg forkastanlega leiðinlegt leikrit. En þessi sýning gerði heilmikið fyrir mig.

Noh-leikhúsið byrjaði að þróast í Japan á fjórtándu öld. Þessi leikhúshefð byggir mikið á nákvæmum og hægum hreyfingum, fastmótuðum persónugerðum og ákveðnum staðsetningum hljóðfæraleikara og kórs á sviðinu. Rætur þess má rekja til almenningsskemmtana sem kölluðust Sarugaku og tengdust iðkun á tegund búddisma sem kallast Shintu, Dengaku, sem er hreyfilist sem seinna þróaðist yfir í söng- og danslist, og dansa sem ættaðir eru frá Kína. Um miðja fjórtándu öld var þetta listform síðan orðið nokkuð fastmótað í því formi sem nú þekkist sem noh-leikhús.

Reglur þessarar hefðar hafa því mótast nokkuð hratt. Og þær eru nákvæmar. Til dæmis eru reglur um hvernig hljóðfæraleikarar og söngvarar sitja aftast á sviðinu. Og hverjir þeirra sitja á kollum og hverjir á gólfinu. Kór situr alltaf til sviðs-hægri og aðalpersónan, sem kallast shite, er alltaf með grímu, nema hún sé fullorðinn karlmaður. Waki, eða aukapersónan sem fyrst kemur á svið og leggur upp verkið, er það hins vegar aldrei. Persónur í Noh-verkum eru fyrirfram fastmótaðar og hlutverk þeirra, búningar, hreyfingar og staðsetningar á sviðinu er hluti af forminu. Stærð og lögun sviðsins er einnig ákveðin í smáatriðum.

Noh er í eðli sínu dansleikhús sem byggir á stífum reglum, öguðum og mjög hægum reglum og undarlegri tónlist og búningum. Þess vegna kannski ekki hægt að búast við mikilli dramatískri innlifun, allavega ekki af hálfu noh-leikaranna. En þessi sýning Natori-leikhússins á brúðuheimili byggði á því að blanda saman noh- og nútímaleikhúsi.

Ég gerði það viljandi að taka ekki með mér handrit inn í sal, þó slíkt væri í boði. Ég ákvað að láta nægja að þekkja söguþráðinn nokkurn veginn, en vildi frekar geta fylgst með því sem bæri fyrir augu og eyru, án þess að hugsa svo mikið um merkinguna, ef hún skilaði sér ekki. Sem mér finnst reyndar merkilega oft um sýningar á tungumálum sem ég skil ekki, en þarna var náttúrulega um mjög framandi hefð að ræða svo ljóst var að þetta yrði nokkuð trikkí.

Sýningin byrjaði hægt. Búið var að afmarka sviðið með línum á gólfinu. Tónlistarmenn komu inn og röðuðu sér upp aftantil, í mestu rólegheitum. Tveir noh-söngvarar sem mynduðu kór gerðu slíkt hið sama. Mér fannst þetta skemmtilegt. Sérstaklega í ljósi þeirrar tilhneygingar leikhúss Vesturlanda að vilja helst gera skiptingar og inngöngur og útgöngur manna á sviðinu sem ósýnilegastar, hafi þær ekki dramatískan tilgang. Þessir menn gátu hins vegar eiginlega gert sig ósýnilega á sviðinu, þó þeir væru þar allan tímann og í fullum ljósum, bara með því að sitja kyrrir með augun á gólfinu, þegar þeir voru ekki að performera.

Svo hófst sýningin. Tónlistin hljómaði undarlega, kórinn söng á milli atriða í einhverju undarlegu afbrigði af tví- til fimmund og noh-leikararnir hreyfðu sig hægt og agað um sviðið og fluttu textann í undarlegum söng. Til að byrja með hafði ég smá áhyggjur af að þessi sýning yrði mjög alvarlega svæfandi og lengi að líða. En þær áhyggjur vörðu nú bara ekki lengi.

Mér tókst einhvern veginn að detta inn í þennan takt og varð mjög hrifin af tónlistinni. Sérstaklega stefinu sem trommuleikarar og söngvarar í bakgrunni endurtóku á milli atriða. Ég er meira að segja enn að standa mig að því að hafa þau undarlegu hljóð á heilanum. Nútímalegu atriðin þóttu mér koma sem ágætis uppbrot á Noh-inu. Og urðu ennþá fjörlegri í samanburði. Mér þóttu þeir leikarar komast vel frá sínu, þó þau atriði hafi vissulega virst léttari og átakalausari en gengur og gerist með Ibsen, miðað við hið þunga og seigfljótandi noh inn á milli.

Mér fannst sýningin nýbyrjuð þegar hún var allt í einu búin. Allt í allt fannst mér hún mikið augnakonfekt og þessi nákvæmni og reglufesta í hreyfingum og undarlegum óhljóðískum söng náði mér alveg. Auðvitað er betra að hafa einhverja hugmynd um hvað maður er að fara að sjá, ætli menn að skoða noh-sýningar eða önnur framandi og gamaldags leikhús, en mér tókst allavega alveg að njóta þess fullt. Ekki er heldur mikið um dramatíska tjáningu sem snertir hjartans hörpustrengi, en ég held að þessi frásagnarmáti sé í rauninni ekki hugsaður til þess.

Í það heila var ég ánægð með sýninguna og mun tvímælalaust sækja fleiri noh-sýningar í framtíðinni ef ég mögulega á þess kost. En ég er ekki í vafa um að einhverju af þessari innlifun hefði ég týnt, ef ég hefði verið með nefið ofan í handritinu allan tímann, eins og ég sá suma sessunauta mína gera. Það er kannski erfitt fyrir nútímafólk að setja sig inn í það hugarástand, en í þessari sýningu og þessu formi held ég einfaldlega að efnistökin séu ekki endilega aðalatriði.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir