Sýningar Þjóðleikhússins á Gerplu og Íslandsklukkunni hafa gengið fyrir fullu húsi frá því þær voru frumsýndar á Stóra sviði Þjóðleikhússins snemma á árinu, Gerpla í febrúar og Íslandsklukkan á 60 ára afmæli leikhússins í apríl. Það má því segja að Halldór Laxness hafi enn og aftur slegið í gegn, og nú fyrir tilstilli krafts og frumleika leikhússins, sem hefur með töfrum sínum gert sagnaheim skáldsins að sannkallaðri veislu fyrir augu og eyru. Vegna mikillar aðsóknar hefur verið ákveðið að gefa leikhúsgestum færi á að sjá báðar þessar sýningar á nýju ári, þótt sýningafjöldi geti aðeins verið takmarkaður.

Á jólum frumsýnir Þjóðleikhúsið eitt merkasta verk leiklistarsögunnar, Lé konung eftir William Shakespeare. Í allri þeirri velgengni sem sýningar Þjóðleikhússins njóta um þessar mundir er ekki nægjanlegt rými fyrir þær allar á Stóra sviðinu, þannig að ákveðið hefur verið að gera hlé á sýningum á Finnska hestinum fram á næsta ár, en líkt og aðrar sýningar leikhússins hefur hún notið mikilla vinsælda frá því að hún var frumsýnd á haustdögum.

Á litlu sviðunum sýnir Þjóðleikhúsið einnig alls staðar fyrir fullu húsi, Hænuungana og Hvað ef? í Kassanum, Leitina að jólunum á leikhúsloftinu og Fíusól í Kúlunni, eftir að hafa sýnt Sögustund fyrir nærri 5.000 leikskólabörn í Kúlunni í haust.

{mos_fb_discuss:2}